FréttirSkrá á póstlista

28.07.2010

Stutt hlé gert á vinnslunni á Vopnafirði

Ákveðið hefur verið að gera hlé á vinnslu í uppsjávarfrystihúsinu á Vopnafirði frá og með verslunarmannahelginni. Vinnsla mun þó ekki liggja lengi niðri því stefnt er að því að frysting fari í gang að nýju þann 9. ágúst nk. Hlé verður einnig gert á útgerð uppsjávarveiðiskipa HB Granda um svipað leyti og miðað er við að hvert skip verði í höfn í u.þ.b. vikutíma áður en síld- og makrílveiðar hefjast á nýjan leik.

Að sögn Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra á Vopnafirði, er fríið kærkomið því miklar annir hafa verið í fiskiðjuverinu á Vopnafirði nú í sumar. Um 65 manns hafa starfað við frystinguna og hefur gengið vel að manna vaktirnar að sögn Magnúsar. Undanfarin ár hefur yfirleitt verið gert hlé á uppsjávarvinnslunni vegna sumarleyfa í um sex vikur á sumri en nú verður sumarlokunin mun styttri eða aðeins rúm ein vika.

Það hefur verið nóg að gera í höfninni á Vopnafirði nú í júlímánuði því í byrjun vikunnar höfðu uppsjávarveiðiskipin Faxi RE, Ingunn AK og Lundey NS landað þar afla 23 sinnum frá því í byrjun mánaðarins. Síðasta löndun fyrir vinnsluhlé er í dag en þá verður landað úr Ingunni AK og er stefnt að því að löndun ljúki á morgun.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir