FréttirSkrá á póstlista

23.07.2010

Rúmlega 15.000 tonn af makríl og síld

Skip HB Granda hafa alls veitt rúmlega 15.000 tonn af makríl og síld það sem af er þessu ári. Undanfarin ár hefur makríll aðallega veiðst sem meðafli á síldveiðunum en nú bregður svo við að makríll er um 60% aflans.

Að sögn Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarveiðiskipa HB Granda, hafa Faxi RE, Ingunn AK og Lundey NS nú veitt rúmlega 9.000 tonn af makríl og rúmlega 6.000 tonn af síld á vertíðinni.

Reynt hefur verið að beina skipunum í auknum mæli á síldveiðar upp á síðkastið en makrílvinnsla er nú hafin að nýju á Vopnafirði eftir nokkurra daga hlé. Alls er búið að frysta um 3.200 tonn af makríl í fiskiðjuverinu á Vopnafirði og um 2.000 tonn af síldarafurðum.

Þess má geta að Ingunn kom í gær með tæplega 500 tonna afla til Vopnafjarðar og var uppistaða aflans síld. Í morgun var verið að ljúka við að landa um 400 tonna afla úr Lundey en aflinn var hvort tveggja síld og makríll. Þá var von á Faxa RE nú um miðjan daginn með um 400 tonna afla en uppistaðan í honum er makríll.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir