FréttirSkrá á póstlista

16.07.2010

Makrílveiðar frystitogaranna ganga vel

Frystitogararnir Venus HF og Þerney RE hafa verið við makrílveiðar undanfarna daga og hafa veiðarnar gengið mjög vel að sögn Steindórs Sverrissonar, gæðastjóra frystiskipa HB Granda. Veitt er af sérstökum makrílkvóta sem frystitogararnir fengu úthlutað á þessu ári og má hvert skip veiða 230 tonn af makríl. Heildarkvóti skipa HB Granda á þessu ári er því 1.150 tonn.

,,Skipin hafa verið að veiðum með sérútbúnum flottrollum frá Hampiðjunni um 40-50 sjómílur vestur og suðvestur af Garðskaga. Það virðist vera makríll um allan sjó. Það er ekkert vandamál að veiða makrílinn og veiðarfærin hafa virkað mjög vel. Í raun er það frystigetan sem stjórnar gangi veiðanna. Makríllinn er að fitna mjög hratt um þessar mundir og er orðinn mjög feitur og viðkvæmur að sama skapi. Það þarf að kæla hann vel og síðan þarf að frysta hann lengur og betur en annan fisk. Það hefur verið hægt að frysta um 20 til 25 tonn á sólarhring,“ segir Steindór en hann upplýsir að svo virðist sem að helsta æti makrílsins á veiðislóðinni sé ljósáta. Mjög lítið er um meðafla. Steindór telur að mjög miklir framtíðarmöguleikar séu fólgnir í veiðum, vinnslu og markaðssetningu á makríl.

,,Við erum að stíga fyrstu skrefin og í mínum huga má líkja þessu við það þegar úthafskarfaveiðarnar voru að hefjast á sínum tíma. Mörgum þóttu þær ekki mjög gáfulegar en í dag efast enginn um gildi þeirra,“ segir Steindór Sverrisson.

Þess má geta að Venus og Þerney eru nú u.þ.b. hálfnuð

með að veiða makrílkvóta sína en þegar kvótunum verður náð munu Helga María AK og Örfirisey RE taka við makrílflottrollunum og fara til veiða. Höfrungur III AK mun síðan slá botninn í veiðarnar þegar þar að kemur.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir