FréttirSkrá á póstlista

13.07.2010

Makrílveiðar ganga mjög vel

Faxi RE er nú á leið til Vopnafjarðar með tæplega 400 tonna afla. og Uppistaða aflans er makríll sem fékkst á veiðisvæðinu í nágrenni Rósagarðsins í gær og nótt en þangað er um 130 sjómílna sigling frá Vopnafirði. Að sögn Alberts Sveinssonar skipstjóra hafa makrílveiðarnar gengið mjög vel en reynt er að skammta aflann þannig að aflamagnið henti sem best fyrir vinnsluna.

,,Við vorum komnir á miðin í gærmorgun og fengum þá strax ágætt hol. Við létum svo reka yfir daginn og notuðum tímann til þess að framleiða ískrapa til að kæla aflann. Það voru svo tekin tvö stutt hol í gærkvöldi og í nótt og þau dugðu til þess að ná hæfilegum afla fyrir vinnsluna,“ sagði Albert en að hans sögn fitnar makríllinn mjög hratt um þessar mundir og hann er því laus í sér og viðkvæmur í flutningum og því er siglt með tiltölulega smáa farma. Flestir eru sammála um að best væri að veiða makrílinn heldur síðar þegar ástand hans er orðið betra en þar sem óheimilt er að flytja makrílkvótann milli ára líkt og síldarkvótann þá þora menn ekki annað en að veiða sem allra mest af kvótanum á meðan makrílinn gefur sig til innan íslensku lögsögunnar.

Að sögn Alberts er lítið af síld með makrílnum á veiðisvæðinu í nágrenni Rósagarðsins en á öðrum svæðum nær landi getur hlutfall síldarinnar í aflanum náð allt að 70-80%. Albert segir að best sé að reyna að halda þessum tveimur tegundum sem allra mest aðskildum. Erfitt er að flokka smærri makríl frá síld, sem bitnar á vinnslunni, og sömuleiðis er hætta á því að makrílinn skemmi síldina í tönkum skipanna.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir