FréttirSkrá á póstlista

22.06.2010

Vinnslan gengur samkvæmt áætlun

Vinnsla á makríl og síld hjá fiskiðjuveri HB Granda á Vopnafirði gengur samkvæmt áætlun að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra. Hann segir að flokkun á aflanum hafi gengið mjög vel en það taki sinn tíma að stilla saman nýjar vélar fyrir makrílvinnsluna.

Nú er lokið við að vinna makríl- og síldarafla Ingunnar AK og vinnsla á aflanum úr Lundey NS stendur yfir. Þá er von á Faxa RE til Vopnafjarðar um kl. 14 í dag með um 250 tonna afla og er uppistaða hans makríll. Að sögn Magnúsar er makríllinn hausskorinn og slógdreginn og síðan frystur. Einnig var gerð tilraun til þess að flaka hluta af afla Ingunnar í svokölluð samflök og verða prufur sendar kaupendum ytra í framhaldinu.

Makríllinn, sem verið er að vinna á Vopnafirði, er misjafn að stærð eða frá um 200 grömmum og upp í rúmlega 400 grömm ef miðað er við hausaðan og slógdreginn fisk. Makríllinn er ekki mjög feitur enn sem komið er en Magnús segir hann geta fitnað mjög hratt á tiltölulega fáum dögum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir