FréttirSkrá á póstlista

21.06.2010

Mesti vandinn að halda hlerunum undir yfirborðinu

Ingunn AK og Lundey NS er nú í höfn á Vopnafirði með samtals um 700 tonna afla sem fékkst suðaustur af landinu um helgina. Þar er eru um 600 tonn af makríl og er þetta fyrsti makrílaflinn sem berst til Vopnafjarðar á vertíðinni.

,,Við fórum út á laugardag og vorum aðallega að veiðum suður í Rósagarðinum og eins á svæðinu þar vestur af. Það hefur víða orðið vart við makríl á þessum slóðum og hann virðist vera á hraðri göngu og að manni virðist í vesturátt. Vestmannaeyingarnir voru síðast að veiðum út af Öræfagrunni og þá eru tvö skip frá Eyjum saman að veiðum með eitt troll miklu sunnar og þau hafa verið að fá makríl,“ sagði Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey NS, er rætt var við hann nú síðdegis. Arnþór og hans menn biðu þess þá að löndun hæfist úr skipinu en aflinn var alls um 250 tonn af makríl og 50 tonn af síld en þessi afli fékkst í þremur holum um helgina. Verið var að landa úr Ingunni AK sem kom til hafnar í gær með um 400 tonna afla en þar af voru um 350 tonn af makríl.

Að sögn Arnþórs vilja menn fara sér rólega í lönduninni enda tekur tíma til þess að stilla flokkunar- og vinnslubúnaðinn fyrir makrílinn en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hafa nýir flokkarar og nýjar flökunarvélar nýlega verið teknar í notkun hjá fiskiðjuverinu á Vopnafirði. En það er ekki bara í vinnslunni sem stillinga er þörf.

,,Við þurfum að hafa veiðunum með allt öðrum hætti en við erum vanir þegar makrílinn er annars vegar. Það þarf að draga trollið alveg í yfirborðinu, helst með höfuðlínuna upp úr og mesti vandinn er að halda toghlerunum niðri í sjónum þegar dregið er,“ segir Arnþór en að hans sögn fékkst eitt hreint makrílhol í veiðiferðinni en annars var alltaf eitthvað af síld sem veiddist með makrílnum. Ýmsar kenningar hafa verið uppi um samband makrílsins og síldarinnar og því hefur jafnvel verið haldið fram að makrílinn elti síldina til að éta hana. Arnþór er ekki trúaður á þá kenningu og hann segir að reynsla Vestmannaeyinganna, sem fóru fyrstir til makrílveiða fyrr í þessum mánuði, sé sú að ef fiska eigi makríl þá þýði ekkert að toga tvívegis á sama svæði því í seinna skiptið fáist bara síld. Það bendir til þess að síldin elti makrílinn en ekki öfugt.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir