FréttirSkrá á póstlista

10.06.2010

Síldveiðar fara vel af stað eftir Sjómannadaginn

Íslensku síldveiðiskipin fóru flest til veiða í byrjun vikunnar eftir það hlé sem gert var á veiðunum vegna Sjómannadagsins. Ekki er hægt að segja annað en að byrjunin lofi góðu því skipin hafa verið að fá góðan afla eftir stuttan togtíma.

Ingunn AK og Faxi RE fóru til síldveiða sl. mánudagskvöld og var Ingunn komin mun fyrr á miðin, sem eru um 180 sjómílur norðaustur af landinu, þar sem skipið var í höfn á Vopnafirði um helgina á meðan Faxi var á Akranesi.

Að sögn Guðlaugs Jónssonar, skipstjóra á Ingunni, tók skamman tíma að ná skammtinum fyrir vinnsluna á Vopnafirði en þangað var skipið komið um hádegisbilið í gær.

,,Við vorum komnir á miðin um hádegisbilið á þriðjudag og hófum veiðar skömmu síðar. Þá voru alls átta íslensk skip og eitt færeyskt komin á svæðið. Við tókum tvö stutt hol og fengum 350 tonn af síld og vorum lagðir af stað áleiðis í land um kvöldmatarleytið,“ segir Guðlaugur en hann upplýsir að svo virðist sem að töluvert magn sé af síld á veiðisvæðinu. Hún sé hins vegar horuð enn sem komið er og töluverð áta sé í henni.

Síldin, sem Ingunn kom með til Vopnafjarðar, er af jafnri stærð, um 320 til 330 grömm að þyngd, og nýtingin í vinnslunni er góð þar sem sáralítið hefur flokkast frá. Síldin er öll unnin í samflök og var áætlað að vinnslu á aflanum úr Ingunni lyki um hádegisbil í dag. Lítið hlé ætti þó að verða á vinnslu hjá fiskiðjuveri HB Granda á Vopnafirði því von er á Faxa RE þangað með um 450 tonn af síld nú í hádeginu. Lundey NS fór frá Vopnafirði í gærkvöldi og er skipið væntanlegt á miðin í dag.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir