FréttirSkrá á póstlista

06.06.2010

Á sjó – fyrir hreina tilviljun

,,Það var röð tilviljana sem varð til þess að ég lagði sjómennskuna fyrir mig. Ég hafði aldrei leitt hugann að því að fara í svo mikið sem eina einustu veiðiferð á fiskiskipi, hvað þá að segja upp því starfi sem ég var í og skella mér á sjóinn,“ segir Viðar Sigurðsson, háseti á Faxa RE, en hann er í viðtali hér á heimasíðu HB Granda í tilefni af sjómannadeginum sem haldið er upp á nú um helgina.
Viðar er fæddur og uppalinn í Kópavogi. Föðurfjölskyldan er frá Skarði á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi og móðurfjölskyldan úr Hafnarfirði. Hann segist hafa byrjað tiltölulega seint til sjós eða ekki fyrr en hann var orðinn 36 ára gamall.

,,Ég hafði reyndar farið til sjós á unglingsárum með frændum mínum úr Súðavík, sem stunduðu veiðar á hörpudiski, en það var meira til gamans en sem alvöru starf. Eftir skóla fór ég að vinna í Stálvík í Hafnarfirði og þar byrjaði ég að læra plötu- og ketilsmíði árið 1977. Ég fór sömuleiðis í Iðnskólann og þessu námi lauk ég árið 1980. Stálvík var þá ein af öflugari skipasmíðastöðvum landsins og ég var í þessum skipasmíðabransa næstu 15 árin,“ segir Viðar en að hans sögn fól starfið hjá Stálvík í sér mikil samskipti og samvinnu við útgerðarfélög. Eitt af þessum félögum var Einar Þorgilsson & co í Hafnarfirði sem gerði út loðnu- og síldveiðiskipið Fífil HF en það fékk síðar nafnið Faxi RE.

,,Ég, sem starfsmaður Stálvíkur, vann mikið fyrir þetta fyrirtæki og ekki síst við ýmiss konar viðhaldsverkefni á Fífli. Eftir að Faxamjöl, sem var dótturfyrirtæki Granda hf., keypti skipið og gaf því nafnið Faxi héldu þessi viðhaldsverkefni áfram. Ég þekkti orðið mjög vel til skipverjanna og Torfi Agnars, sem var yfirstýrimaður á Faxa, hafði oftar en einu sinni ýjað að því við mig að ég ætti að prófa sjómennskuna. Á endanum náði hann að sannfæra mig og ég var ráðinn á Faxa 16. júní árið 1995.“

Flottrollið breytti miklu

Viðar segist strax hafa kunnað vel við sjómennskuna og a.m.k. hafi honum ekki dottið í hug að skipta að nýju um starfsvettvang.

,,Ég hef verið heppinn með vinnufélaga og það hefur alltaf verið mjög góður starfsandi um borð í Faxa, bæði þeim gamla og þeim nýja,“ segir Viðar en ,,nýi“ Faxinn, sem hann vísar til, komst í eigu Faxamjöls á árinu 1998. Það skip hét upphaflega Jón Finnsson RE og síðar hét það um skeið Kap VE. Að sögn Viðar voru nýir tímar í hvort tveggja veiðum og vinnslu að halda innleið sína um þessar mundir.

,,Breytingarnar voru margvíslegar. Nú er kæling á aflanum orðin algjört lykilatriði. Um það þurftum við ekki að hugsa hér áður fyrr. Á gamla Faxanum tókum við e.t.v. með okkur nokkur tonn af ís þegar við vorum að veiði á íslensku sumargotssíldinni á haustin. Í dag erum við oft að framleiða upp í tæplega 500 tonn af ís um borð í hverri veiðiferð enda er oft verið að sigla um langan veg eftir aflanum. Önnur grundvallarbreyting var sú að það dró úr loðnuveiðum og í stað þess að geta verið í kraftveiðum á loðnu og síld í nót þá var í auknum mæli farið að sækja í tegundir eins og kolmunna. Flottrollsveiðar uppsjávarveiðiskipa voru óþekktar á þeim tíma og líf okkar snerist um að fá sem mestan afla í nótina og það var lítið hugsað um ferskleika aflans. Þegar við vorum á loðnuveiðum á sumrin var oft verið að kasta allan sólarhringinn og menn stóðu á dekki í allt að 30 tíma í senn. Nú eru flottrollsveiðarnar orðnar allsráðandi. Það er togað frá tveimur til þremur tímum í senn og allt upp í sólarhring. Það segir sig sjálft að flottrollið hefur orðið til þess að létta vinnuna til muna og með tilkomu flottrollsveiðanna var farið huga að því að stjórna aflamagninu þannig að það hentaði fyrir vinnsluna í landi, í stað þess að áður hugsuðu menn aðeins um það að fylla dallinn,“ segir Viðar en hann getur þess að tilkoma flottrollsveiðanna hafi einnig orðið til þess að jafna afkomuna, jafnvel þótt verulegur samdráttur hafi orðið í veiðiheildum á flestum tegundum.
,,Uppsjávarveiðiskapurinn gat verið mjög sveiflukenndur hvað varðaði afkomu manna og fyrirtækja. Ég man þá tíð að verðið á aflanum eða afurðunum lækkaði um helming frá hausti og fram í febrúar. Slíkt er óþekkt á öðrum veiðiskap s.s. á botnfiski. Þegar ég var að byrja til sjós voru mest uppgrip hjá okkur á loðnuveiðunum en nú eru þær veiðar vart svipur hjá sjón. Það kom fyrir á þessum tíma að skip, sem aðeins voru með loðnu- eða síldarkvóta, lágu bundin við bryggju frá því í mars og langt fram á haust. Flottrollsveiðarnar og veiðar á fleiri tegundum hafa orðið til þess að jafna úthaldið mjög mikið hjá mörgum. Það er sótt í fleiri tegundir, s.s. norsk-íslensku síldina, kolmunna og makríl, og það er ekki eins mikið um dauða tíma og áður var. M.a.s. tegundir eins og gulldepla hafa hjálpað til við að ná meiri samfellu í veiðunum en í þá tegund höfum við sótt sitt hvoru megin við áramótin. Árangur í veiðum og vinnslu á gulldeplu hefur aukist mikið og það var bara ágæt afkoma á þessum veiðum í ár.“

Byltingarkennd breyting

Þegar Jón Finnsson kom til landsins á sínum tíma var það upphaf nýrrar endurnýjunar á uppsjávarveiðiskipaflota landsmanna. Þótt þetta skip hafi þótt stórt og öflugt á sínum tíma þá segir Viðar að breyttar forsendur í veiðum og vinnslu hafi fljótlega skákað slíkum skipum úr leik og í raun hafi hinn ,,nýi“ Faxi verið á góðri leið með að breytast í nokkurs konar nátttröll ekki löngu eftir að Faxamjöl tók við skipinu.
,,Okkur þótti að sjálfsögðu mikil breyting að fara yfir á ,,nýja“ skipið en það leið ekki á löngu þar til að við áttuðum okkur á því að við vorum ekki lengur samkeppnishæfir. Þetta kom fyrst og gleggst fram á kolmunnaveiðunum. Framan af vorum við ekki að gera meira en að fiska fyrir tryggingunni sem þó var ekki há. Okkur vantaði sárlega vélarafl til þess að stunda kolmunnaveiðarnar með flottrolli. 2500 hestöflin dugðu skammt sem og þau smáu troll sem við vorum að toga með. Ef við náðum að veiða 100 tonn af kolmunna þá voru öflugari skipin að veiða 300 til 400 tonn. Það eru og hafa verið miklir keppnismenn um borð í Faxa en menn voru hreinlega að gefast upp á kolmunnaveiðunum,“ segir Viðar en hann segir að útgerðin hafi sömuleiðis gert sér fullkomna grein fyrir vandanum. Við honum var brugðist með því að senda Faxa til Póllands árið 2000 þar sem skipið var lengt og skipt var um aðalvél og togvindur svo fátt eitt sé nefnt. Nýja aðalvélin var 5600 hestöfl og með tilkomu þessara breytinga varð Faxi samkeppnishæfur að nýju að sögn Viðars.

,,Þessar breytingar voru bylting fyrir okkur. Núna sækjum við í kolmunna allt að því 750 mílur suður undir Írland og í norsk-íslenska síld og makríl langt norðaustur fyrir land,“ segir Viðar en það er víst eins gott að kolmunnaveiðar á hafsvæðinu vestur af Bretlandseyjum séu stundaðar af öflugum og vel út búnum skipum seinni hluta vetrar.

,,Þetta svæði er í einu orði sagt viðbjóðslegt með tilliti til veðurfars og sjólags. Veðrabreytingar eru oft gríðarlega snöggar í mars og apríl, þegar við höfum verið þarna að veiðum, og sjólagið er líkast því að horft sé niður í kraumandi grautarpott. Brotsjóir geta komið úr öllum áttum og ég hef aldrei kynnst öðru eins veðravíti,“ segir Viðar en önnur breyting, sem ekki hefur verið vikið að hér í þessu spjalli, kemur sér sömuleiðis vel þegar þótt er á fjarlæg mið við erfiðar aðstæður. Þar er átt við þá byltingu sem orðið hefur á fjarskiptum á mjög skömmum tíma.

,,Bætt símasamband og tilkoma internetsins um borð í skipunum hefur breytt miklu. Menn eru ekki eins einangraðir eins og áður var. Nú er hægt að hringja heim hvenær sem er, sent tölvupóst, borgað reikninga í gengum heimabankann eða pantað einhvern bölv.... óþarfa á Ebay ef út í það er farið. Þessi netvæðing hefur líka orðið til þess að flestir eru komnir með fartölvur í klefana en það hefur hins vegar leitt til þess að samskipti manna í borðsalnum hafa minnkað talsvert. Menn horfa meira á fréttirnar inn í klefa eða eru í spjalli á Facebook.“

Sjómannadagurinn

Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur nú um helgina en löng hefð er fyrir því að haldið sé upp á daginn fyrsta sunnudaginn í júní ár hvert. Að sögn Viðars skiptir sjómannadagurinn sjómenn miklu máli og hann segir mikla andstöðu við það innan stéttarinnar að færa daginn eins og hugmyndir hafa komið fram um á undanförnum árum. Viðar segir að misjafnt sé hvort áhafnir skipa haldi sameiginlega upp á daginn en það sé mjög erfitt í tilviki áhafnarinnar á Faxa.

,,Það er ekki hefð fyrir því að öll áhöfnin eða flestir úr henni hittist í tilefni dagsins. Fyrir því er einföld skýring. Á sínum tíma bjó helmingur skipverja í Vestmannaeyjum en hinir voru flestir á höfuðborgarsvæðinu. Það kom reyndar fyrir að við, sem bjuggum í Reykjavík og næsta nágrenni, færum til Eyja um sjómannadagshelgina til þess að hitta félagana en það var þó frekar sjaldgæft. Núna búa skipverjar vítt og breitt um landið. Flestir eru á höfuðborgarsvæðinu en aðrir er búsettir á stöðum eins og Akranesi, Selfossi, Vestmannaeyjum og Akureyri. Við, sem erum í næsta nágrenni höfuðborgarinnar, höfum yfirleitt reynt að mæta á árshátíð HB Granda, sem segja má að marki upphaf sjómannadagshelgarinnar fyrir okkur, og síðan mæta menn í sjómannadagskaffið í höfuðstöðvum félagsins á Norðurgarði,“ segir Viðar Sigurðsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir