FréttirSkrá á póstlista

04.06.2010

Opið hús hjá HB Granda

Það verður mikið um að vera á Grandagarðinum um helgina í tilefni af Hátíð hafsins og Sjómannadagsins sem haldinn verður hátíðlegur nk. sunnudag. HB Grandi tekur þátt í hátíðarhöldunum með því að bjóða gestum Hátíðar hafsins í kaffi og kökur í húsakynnum félagsins að Norðurgarði.

Að sögn Eggerts Benedikts Guðmundssonar, forstjóra HB Granda, verður opið hús á Norðurgarði frá kl. 14 til 17 á sunnudeginum og mun Slysavarnardeild kvenna í Reykjavík sjá um veitingar. Kl. 15 verður sett upp sýningin Á frívaktinni en þar mun Ragnar Bjarnason, ásamt hljómsveit og söngvurum, flytja sjómannalög með kynningum.

,,Ég vil sérstaklega hvetja núverandi og fyrrverandi starfsmenn, sem og alla aðra gesti Hátíðar Hafsins, til þess að koma og fá sér kaffi og með því og vonandi verður fjölmenni,” segir Eggert Benedikt Guðmundsson.

Þess má geta að Rás 2 hefur að undanförnu staðið fyrir árlegri sjómannalagakeppni og að þessu sinni er HB Grandi bakhjarl keppninnar. Sigurlagið verður flutt á Hátíð hafsins um helgina.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir