FréttirSkrá á póstlista

02.06.2010

Góður gangur í úthafskarfaveiðunum

Hlé verður gert á úthafskarfaveiðum skipa HB Granda nú í vikunni vegna sjómannadagsins en fjórir frystitogarar félagsins hafa stundað veiðarnar undanfarnar vikur. Aflabrögð hafa verið mjög góð og má heita að full vinnsla hafi verið um borð í skipunum frá fyrsta degi vertíðarinnar en afkastageta þeirra er um 40 til 50 tonn af fiski upp úr sjó á sólarhring.

Birkir Hrannar Hjálmarsson, rekstrarstjóri togara HB Granda, segir að í ár hafi verið farið fyrr til úthafskarfaveiðanna en sl. tvö ár en það stafaði af lakari kvótastöðu í karfa og þorski á heimamiðum en oftast áður.
,,Venus HF fór fyrstur togaranna til úthafskarfaveiðanna að þessu sinni eða í byrjun maímánaðar og Þerney RE fylgdi svo í kjölfarið. Bæði þessi skip verða búin að veiða kvóta sína í úthafinu fyrir sjómannadaginn en þeir eru um 1.150 tonn af karfa fyrir hvort skip,“ segir Birkir Hrannar en til samanburðar má geta þess að í fyrra hófust úthafskarfaveiðar skipa HB Granda ekki fyrr en um 20. maí.

Hinir tveir togarar félagsins sem stunda úthafskarfaveiðar á þessari vertíð, Helga María AK og Örfirisey RE, fóru seinna til veiða en Venus og Þerney og að sögn Birkis Hrannars munu þau eiga eitthvað óveitt af kvótum sínum þegar skipin koma til hafnar nú í vikunni. Von er á Venusi og Þerney á morgun en Helgu Maríu og Örfirisey á föstudagskvöld. Þess má geta að heildarkarfakvóti HB Granda í úthafinu er um 4.600 tonn á þessu ári.

,,Það er mat sumra skipstjóra að það sé meira um karfa á ferðinni á Reykjaneshryggnum í ár en undanfarin ár. Smærri karfi er farinn að sjást með grynnra en eftir því var fyrst tekið í fyrra. Það verður að teljast góðs viti því smærri karfinn hvarf alveg úr veiðinni á tímabili,“ segir Birkir Hrannar en hann upplýsir að karfatorfan, sem veitt hefur verið úr, hafi stundum haldið sig rétt innan við landhelgislínuna en þó oftast verið á sjálfri línunni og fyrir utan hana. Aflabrögðin hafa almennt verið góð þrátt fyrir að segja megi að þarna hafi stundum verið þétt setinn bekkurinn. Þegar best eða verst lét, allt eftir því hvernig horft er málin, voru um og yfir 50 skip að veiðum á tiltölulega afmörkuðu svæði í nágrenni íslensku lögsögumarkanna á Reykjaneshryggnum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir