FréttirSkrá á póstlista

01.06.2010

Vinnsla gengur vel á Vopnafirði

Vinnsla á síld hófst síðdegis í gær hjá fiskiðjuveri HB Granda á Vopnafirði eftir að Lundey NS kom þangað með um 300 tonna síldarafla. Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum eru nýhafnar og er þetta fyrsti farmurinn sem berst til Vopnafjarðar á vertíðinni.

,,Það er áta í síldinni og hún er frekar horuð eins og við er að búast í byrjun vertíðar,“ sagði Magnús Róbertsson, vinnslustjóri á Vopnafirði, er rætt var við hann um gang mála í vinnslunni. Hann segir að í mörg horn sé að líta því búið sé að taka í notkun nýtt innmötunarkerfi fyrir síld og makríl og breyta vinnslulínum með tilkomu nýrra, sjálfvirkra flökunarvéla.

,,Vinnslan hófst fljótlega eftir að Lundey kom til hafnar og það hefur allt gengið vandræðalaust fyrir sig,“ sagði Magnús en síldin er öll unnin í svokölluð samflök.

Ingunn AK er nú að síldveiðum djúpt norðaustur af Vopnafirði en ákveðið var að bíða með að senda Faxa RE til veiða vegna sjómannadagsins sem haldinn verður hátíðlegur nk. sunnudag.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir