FréttirSkrá á póstlista

26.05.2010

Fengu hæstu einkunn í alþjóðlegri gæðavottun

Niðurstöður úttektar á starfsemi fiskiðjuvera HB Granda á Norðurgarði í Reykjavík og á Akranesi og markaðsdeildar félagsins sýna að gæði framleiðslunnar eru með því besta sem þekkist. Stuðst er við gæðavottunarkerfið International Food Standard (IFS) en samkvæmt því fengu bæði fiskiðjuverin mjög háa einkunn í úttektinni eða rúmlega 96%.

IFS (International Food Standard) er staðall sem helstu smásöluaðilar innan Evrópusambandsins hafa komið sér saman um til þess að tryggja heilnæmi og öryggi matvæla sem og rekjanleika og áreiðanleika hvað varðar afhendingu og upplýsingar um viðkomandi matvæli. Samkvæmt IFS jafngildir einkunn yfir 95% því sem nefnt er ,,higher level“ en einkunn á bilinu 75-95% er það sem nefnt er ,,foundation level“. Ekkert fyrirtæki fær gæðavottun sé einkunnagjöfin undir 75%.
Fiskiðjuverið á Norðurgarði fór í sína fyrstu IFS vottun árið 2006 og hefur sambærileg úttekt og vottun farið þar fram reglulega síðan þá. Fiskiðjuverið á Akranes hefur ekki farið í úttekt og gæðavottun fyrr en nú en niðurstaðan er engu að síður glæsileg.

Að sögn Svavars Svavarssonar, markaðsstjóra HB Granda, er niðurstaða vottunarinnar nú einkar ánægjuleg. Með henni hafi fengist staðfest að verið sé að framleiða hágæðaafurðir í fiskiðjuverum félagsins og að allt framleiðsluferlið sem og rekjanleiki afurðanna og afhendingartími standist ströngustu kröfur.

,,Allar helstu smásölukeðjur í Evrópu gera þá kröfu að þeir sem selja þeim vörur hafi fengið vottað að þeir vinni samkvæmt IFS staðlinum. Sem dæmi má nefna að við seljum mikið magn af karfa í eins kílóa neytendapakkningum til þýskra smásölukeðja en það gætum við ekki gert ef værum ekki vottaðir framleiðendur samkvæmt IFS staðlinum,“ segir Svavar en hann bendir á að þróunin hafi verið sú undanfarin ár að sífellt sé verið að herða kröfurnar, sem IFS staðallinn byggir á, og uppfærður staðall sé gefinn út reglulega. Því þurfi reglulega að leggja í töluverða vinnu við að aðlaga starfsemina nýjum og hertum kröfum til þess að standast úttektina, sem fer fram einu sinni á ári, og fá þá vottun sem að sé stefnt.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir