FréttirSkrá á póstlista

19.05.2010

Síldveiðar að hefjast

Stefnt er að því að Lundey NS fari til síldveiða eftir hvítasunnuhelgina eða um miðja næstu viku og í framhaldinu munu Faxi RE og Ingunn AK verða send til veiða að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda.

Að sögn Vilhjálms hefur lítið heyrst af gangi síldveiða en a.m.k. eitt íslenskt skip hefur reynt fyrir sér að undanförnu. Í fyrra fóru skip HB Granda til síldveiða um 24. maí þannig vertíðarbyrjunin nú verður á svipuðu róli ef farið verður til veiða eftir hvítasunnuna.

Hjá fiskiðjuveri HB Granda á Vopnafirði hefur verið unnið að undirbúningi síldarvertíðarinnar undanfarnar vikur. Búið er að kaupa tvær nýjar, sjálfvirkar flökunarvélar af Baadergerð auk nýrra færibanda og annars búnaðar til innmötunar á síldarvélarnar. Magnús Róbertsson, vinnslustjóri á Vopnafirði, segir að verið sé að leggja lokahönd á breytingar á vinnslusalnum en þar eru nú sjö flökunarvélar og þar af þrjár sjálfvirkar.

,,Það hefur farið mikil vinna í að breyta innmötunarkerfinu. Við erum nú með uppsetta tvo flokkara fyrir síld og tvo fyrir makríl og ég er að vonast til þess að þær breytingar, sem gerðar hafa verið, geri okkur kleift að auka afköstin í vinnslunni til mikilla muna,“ segir Magnús Róbertsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir