FréttirSkrá á póstlista

11.05.2010

Íslensk flökunarvél sett í Þerney RE

Ný, íslensk flökunarvél frá fyrirtækinu Vélfagi ehf. í Ólafsfirði var sett um borð í frystitogarann Þerney RE nú í byrjun mánaðarins. Umrædd flökunarvél, sem er af gerðinni M700 og ætluð til flökunar á bolfiski, hefur vakið mikla athygli og hafa vélar af þessari gerð verið teknar í notkun um borð í nokkrum vinnsluskipum auk þess sem þær hafa verið notaðar með góðum árangri í landvinnslu Samherja á Dalvík.

,,Það var tekin ákvörðun um kaup á flökunarvélinni um sl. áramót en vegna anna hjá fyrirtækinu þá fengum við hana ekki afhenta fyrr en í lok apríl sl. Niðursetningin fór fram í Reykjavík og sáu starfsmenn fyrirtækisins Micro um þann þátt málsins. Þeir stóðu sig með mikilli prýði og skiluðu mjög góðri vinnu,“ segir Steindór Sverrisson, gæðastjóri HB Granda.

Að sögn Steindórs var kominn tími á að skipta út flökunarvélinni í Þerney RE vegna mikillar tæringar eða ráðast að öðrum kosti í mikið og kostnaðarsamt viðhald á vélinni.

,,Í ljósi þess að það er komin mjög góð reynsla á flökunarvélina frá Vélfagi þá ákváðum við að kaupa nýja vél af fyrirtækinu. Frumgerð vélarinnar var kynnt fyrir þremur árum og þar sem hún er smíðuð úr ryðfríu stáli og plasti þá hentar hún einkar vel til notkunar um borð í vinnsluskipum. Hún er sömuleiðis mjög vel samkeppnisfær við aðrar gerðir flökunarvéla. Hún er einföld að gerð, auðveld í notkun, þarfnast lítils viðhalds, er afkastamikil og skilar mjög góðri nýtingu. Þá spillir ekki fyrir að þetta er alíslensk framleiðsla sem sömuleiðis er á hagstæðara verði en erlendu flökunarvélarnar,“ segir Steindór en að hans sögn eru tæknimenn Vélfags nú að þróa roðflettivél sem hægt verður að tengja flökunarvélinni og er búist við henni á markað með haustinu. Þá framleiðir fyrirtækið hausara sem reynst hafa mjög vel og segir Steindór að áhugi sé fyrir því hjá HB Granda að fjárfesta einnig í þeim búnaði.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir