FréttirSkrá á póstlista

11.05.2010

HB Grandi er bakhjarl sjómannalagakeppninnar á Rás 2

Ákveðið hefur verið að HB Grandi verði bakhjarl sjómannalagakeppni Rásar 2 og Hátíðar hafsins í ár. Umrædd keppni hefur vakið verðskuldaða athygli undanfarin ár enda hafa nokkur sigurlaganna náð miklum vinsældum. Í fyrra var það lagið Sófasjómaðurinn með Skapta Ólafs og Sniglabandinu, sem bar sigur úr býtum. Faðmurinn í flutningi Ragnars Bjarnasonar var sigurlag síðasta árs en árið áður voru það Ljótu hálfvitarnir sem sigruðu með laginu Sonur hafsins. 

Að sögn Böðvars Jónssonar, markaðsfulltrúa hjá RÚV, hófst kynning á keppninni í ár í lok aprílmánaðar. Þau skilyrði eru sett að innsend lög séu frumsamin og við frumorta íslenska texta. Skilafrestur er til 25. maí nk. Dómnefnd verður skipuð starfsmönnum á Rás 2. Þau lög sem komast í úrslit verða kynnt á Rás 2 í fyrstu viku júnímánaðar og landsmenn geta einnig hlustað á lögin á vefslóðinni www.ruv.is/Poppland. Þar geta hlustendur sömuleiðis greitt sínu uppáhaldslagi atkvæði. Sjálf úrslitin verða kunngjörð í þættinum Popplandi á Rás 2 föstudaginn 4. júní nk. Sigurlagið verður svo flutt á Hátíð hafsins á Grandagarði, Sjómannadagshelgina 5. til 6. júní nk., og mun það væntanlega hljóma ótt og títt í útvarpi allra landsmanna í allt sumar. Í hlut sigurvegarins kemur 100 þúsund króna vöruúttekt í Krónunni þannig að auk heiðursins af því að sigra í keppninni, er eftir töluverðu að slægjast.

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, segir að ákveðið hafi verið að vera bakhjarl sjómannalagakeppninnar þegar eftir því var leitað.

„Við höldum sjómannadaginn hátíðlegan á margvíslegan hátt. Við höldum árshátíð okkar kvöldið fyrir sjómannadaginn, enda er það eina helgin, sem allir okkar sjómenn hafa tækifæri til að mæta. Þá tökum við virkan þátt í Hátíð hafsins hér úti á Granda. Við vorum með opið hús í fyrra og verðum aftur með það í ár. Konurnar í Slysavarnafélaginu munu sjá okkur fyrir veitingum, sem veittar verða gestum og gangandi í boði HB Granda. Okkur fannst tilvalið að gerast bakhjarl sjómannalagakeppninnar og hlökkum mikið til að heyra lögin,“ segir Eggert Benedikt Guðmundsson.

Nýjustu fréttir

31.12.2019

Gleðilegt ár

24.12.2019

Gleðileg jól

Allar fréttir