FréttirSkrá á póstlista

05.05.2010

Fyrsta útskipunin eftir breytingar á Vopnafirði

Kolmunnaveiðum skipa HB Granda á þessari vertíð er nú lokið. Lundey NS kom með rúmlega 1.300 tonna afla til Vopnafjarðar í gær og Faxi RE kom til Akraness með 1.400 tonn sl. mánudag. Ákveðin tímamót voru á Vopnafirði í gær en þá var í fyrsta sinn skipað út mjöli í nýju og lokuðu útskipunarkerfi í hinni nýju verksmiðju HB Granda sem tekin var í notkun fyrir tveimur mánuðum.

Sveinbjörn Sigmundsson, verksmiðjustjóri HB Granda á Vopnafirði, segir að flutningaskipið Wilson Grip hafi komið til Vopnafjarðar í gær frá Grundartanga til þess að lesta mjöl.

,,Útskipunin gekk skínandi vel og þetta er mikil framför frá því sem áður var. Þá þurfti alls 16 manns til þess að sjá um útskipunina en núna sjá tveir menn um þetta starf. Hið sama má reyndar segja um alla starfsemi sem tengist verksmiðjunni. Það eru bara fjórir starfsmenn á hverri vakt og framleiðslan hefur gengið vonum framar. Auðvitað hafa ýmsir byrjunarörðugleikar gert vart við sig en við höfum tekið á þeim vandamálum sem upp hafa komið og leyst þau eitt af öðru. Við höfum eðlilega ekki enn fengið viðbrögð frá kaupendum en öll sýni, sem við höfum tekið og látið greina, votta að við erum hér að framleiða hágæðamjöl. Hráefnið hefur verið ferskt og gott og það er auðvitað forsenda þess að afurðirnar standist ströngustu kröfur,“ segir Sveinbjörn Sigmundsson.

Þess má geta að hlé verður nú gert á uppsjávarveiðum skipa HB Granda fram til 20. maí nk. eða þar um bil en þá er vonast til þess að veiðar á norsk-íslensku síldinni geti hafist. Ingunn AK hefur að undanförnu verið í slipp í Reykjavík í hefðbundnu viðhaldi. Því verki lauk sl. mánudag. Faxi RE fer í slipp um næstu helgi en auk reglubundins viðhalds verður skipið botnmálað.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir