FréttirSkrá á póstlista

28.04.2010

Mikill áhugi á makríl og íslenska umhverfismerkinu

,,Aðsóknin hér á sýningarbásnum hefur farið fram úr okkar björtustu vonum. Okkur hefur gefist kostur á að hitta okkar góðu viðskiptavini og svo er mikið um að hingað komi aðilar sem hafa áhuga á að stofna til nýrra viðskiptasambanda. Menn hafa m.a. sýnt makrílnum mikinn áhuga og það hefur greinilega spurst út að Íslendingar hyggist í stórauknum mæli vinna makríl til manneldis á þessu ári.“

Þetta sagði Svavar Svavarsson, markaðsstjóri HB Granda, er rætt var við hann um hádegisbilið í dag. Svo sem fram hefur komið óttuðust margir að óvissuástandið vegna flugsamgangna í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli yrði til þess að margir myndu hætta við að sækja sýningarnar í Brussel en að sögn Svavars var sá ótti greinilega ástæðulaus.

,,Auk þess, sem menn ræða við okkur um framleiðsluvörur okkar, þá hefur nýja, íslenska umhverfismerkið vakið mikla athygli en það hefur verið vel kynnt á sýningarbásum íslensku fyrirtækjanna sem og á bás Útflutningsráðs. Kaupendur eru mjög uppteknir af því að fá afurðirnar vottaðar þannig að tryggt sé að fiskurinn sé veiddur undir merkjum sjálfbærrar nýtingar. Það er stefnt að því að þorskurinn fái vottun í sumar og síðan karfinn og ufsinn og það eru því spennandi tímar framundan,“ segir Svavar Svavarsson.

Líkt og fram kom í frétt hér á heimasíðunni í gær þá hefur Þórður Þrastarson, matreiðslumeistari frá Akranesi, séð um að töfra fram smárétti úr sjávarfangi á sýningarbás HB Granda í Brussel og hafa gestir og gangandi gert góðan róm af þessu framtaki. Að sögn Þrastar Reynissonar, vinnslustjóra hjá HB Granda á Akranesi og föður Þórðar, er reiknað með því að hátt í 90 kíló af íslenskum fiski; þorski, karfa og ufsa, verði notuð í þessu skyni alla þrjá sýningardagana. Þetta magn samsvarar um 3.000 skömmtum af smáréttum þannig að allir þeir, sem leggja leið sína á sýningarbás HB Granda, ættu að geta bragðað á kræsingunum.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir