FréttirSkrá á póstlista

27.04.2010

Annríki á sýningarbás HB Granda í Brussel

Sjávarútvegssýningarnar European Seafood Exposition (ESE) og Seafood Processing Europe (SFE) voru formlega opnaðar í Brussel kl. 10 í morgun að íslenskum tíma. HB Grandi er eitt 26 íslenskra fyrirtækja sem kynnir framleiðslu sína á ESE-sýningunni og að sögn Svavars Svavarssonar, markaðsstjóra HB Granda, hefur verið mikið annríki á sýningarbás fyrirtækisins í dag.

,,Við vissum ekki alveg á hverju við áttum von enda vorum við búin að heyra af því að töluvert hefði verið um afboðanir vegna áhrifa eldgossins í Eyjafjallajökli á flugsamgöngur í Vestur-Evrópu. Hér er rætt um að afboðanir séu aðallega bundnar við þá sem hugðust koma hingað frá Asíuríkjum en þrátt fyrir það hefur aðsóknin verið mjög góð í dag. Það hefur a.m.k. verið annríki á sýningarbásnum okkar og menn ræða nú um að það stefni í metaðsókn á sýningunni,“ segir Svavar en í ár var bryddað upp á þeirri nýbreytni að Þórður Þrastarson, matreiðslumeistari og eigandi veitingahússins Galito á Akranesi, var fenginn til þess að sjá um matreiðslu á sýningarbás HB Granda. Boðið hefur verið upp á ýmsa smárétti úr sjávarafurðum en grunnhráefnið er þorskur, karfi og ufsi.

,,Þetta hefur slegið rækilega í gegn og sýningargestir hafa gert smáréttunum hans Þórðar góð skil,“ segir Svavar Svavarsson.

Þess má geta að það er Útflutningsráð Íslands sem skipulagt hefur þátttöku íslensku fyrirtækjanna á sýningunum í Brussel. Íslensku fyrirtækin á ESE-sýningunni eru öll á sameiginlegu sýningarsvæði og er þetta í 18. sinn sem sérstakur Íslandsbás er á ESE-sýningunni.

Myndin: Það var gestkvæmt á sýningarbás HB Granda í dag. Á myndinni eru (f.v.) Sonja Óskarsdóttir, markaðsfulltrúi  HB Granda, Sverrir Haukur Gunnlaugsson, einn af yfirmönnum ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA), Aðalsteinn Sverrisson,verkefnastjóri á sýningarsviði Útflutningsráðs, Guðný Aðalsteinsdóttir, eiginkona Sverris Hauks, Þorsteinn Ingólfsson, sendiherra Íslands hjá NATO í Brussel og Svavar Svavarsson, markaðsstjóri HB Granda.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir