FréttirSkrá á póstlista

26.04.2010

Ræða Árna Vilhjálmssonar, stjórnarformanns, á aðalfundi HB Granda 23. apríl.

Aðalfundur HB Granda hf. 23. apríl 2010

Skýrsla formanns stjórnar, Árna Vilhjálmssonar

Fundarstjóri, góðir fundarmenn

        Að venju byrja ég á því að reyna að leiða ykkur í sannleikann um afkomu félagsins á síðasta rekstrarári. Árið 2009 var annað árið sem við gerðum reikninga okkar upp í evrum. Vörusala HB Granda nam samtals 117,0 m€, sem gerði um 20,2 makr (20.203 mkr), og er þá notast við meðalgengi evru á árinu. Vörusalan var nokkru minni en árið áður; hún var þá rúmlega 124 m€. EBITDA ársins, sú nafntogaða stærð, þ.e. rekstrarhagnaður fyrir frádrátt afskrifta af rekstrarfjármunum, nam 32,0 m€, sem gerir 27,4% af vörusölu. Árið 2008 var þessi stærð talsvert lægri, eða 23,8%. Rekstrarafkoma fyrirtækisins hefur ávallt ráðist mjög af raungengi krónunnar og á síðasta ári var það mun lægra, og þar með hagstæðara fyrir okkur, en nokkru sinni áður á síðustu 12 árum. Að vísu eru mikilvægir gjaldaliðir, eins og brennsluolía og laun sjómanna, fasttengdir erlendum gjaldmiðlum, en það dregur úr jákvæðum áhrifum lækkunar á raungenginu. En þó að starfsemi okkar hafi verið með sama sniði og árið á undan þá nýttust framleiðslutækin okkur á annan hátt. Botnfiskaflinn var nokkurn veginn hinn sami þessi tvö ár í tonnum talinn (rúm 47 þús. tonn), en það náðist að gera hann mun verðmætari seinna árið. Í uppsjávarfiski minnkaði heildaraflinn hins vegar um rúm 20%, úr 126 í rúm 100 þús. tonn. Ekkert varð af loðnuvertíð. Í hlut okkar kom einungis að veiða rúm 3.000 tonn fyrst og fremst í þágu rannsókna. Árið áður fengum við hins vegar að veiða rúml. 30.000 tonn, sem tókst að nýta mjög vel. Vegna sýkingar í íslenskri síld, fór vertíðin, sem við hana er kennd, forgörðum. Aflinn, sem við máttum taka, fór allur í bræðslu; næstu tvö árin á undan öfluðu skip okkar um 19.000 hvort ár. Veiðar á öðrum uppsjávarfiski, þ.e. kolmunna, norsk-íslenskri síld og makríl, gengu hins vegar mjög vel, eftir atvikum, en ámælisvert þótti, að makrílkvóta skyldi ekki úthlutað á einstök skip. Útkoman fyrir uppsjávarfiskinn varð sú, að vörusalan varð um 15 m€ lægri 2009 heldur en 2008, þ.e. 30,5 m€ í stað 49,3 m€ árið áður. Vergur hagnaður af þessari deild lækkaði um 7,5 m€, eða 50%. Verðmæti seldra botnfiskafurða jókst hins vegar úr 70,9 me€ í 81,9 m€ og vergur hagnaður jókst um 9,9 m€, eða nokkru meira en við fórum á mis við í uppsjávarfiskhluta fyrirtækisins. Sérstaklega ber að fagna árangrinum, sem náðist í fiskvinnslunum hér í Norðurgarði og á Akranesi, en hann byggðist m.a af vel heppnuðum viðskiptum á fiskmörkuðum og við aðrar útgerðir. Það sem hefur gerst hjá okkur árin 2008 og 2009 getur verið til marks um, hvert gildi það hefur að standa að fjölbreyttri starfsemi, þegar best lætur, með því að einni deild eða starfsþætti vegni vel, þegar verr gengur hjá annarri, þannig að dragi úr sveiflum í afkomu heildarinnar. 

          Ég ætla nú að ljúka við að fara yfir meginatriðin, sem rekstrarreikningur hefur að segja um afkomuna á síðasta ári. Til þess að komast að hagnaði ársins verðum við svo að draga frá EBITDA afskriftir, 10,7 m€, til þess að fá stærðina rekstrarhagnað. Því næst er að draga frá rekstrarhagnaði liðina fjármagnsgjöld að frádregnum fjáreignatekjum, 2,9 m€, neikvæð áhrif hlutdeildarfélaga, 2,4 m€ og tekjuskatt, 3,0 m€. Þá fæst, að hagnaður ársins hefur numið 13,0 m€, þ.e. 2.253 mkr, sem gerir um 11,2% hagnaðarhlutfall (þ.e. hlutfall af vörusölu). Sé hagnaðurinn settur í hlutfall við eigið fé, fæst út 10,8% ávöxtun eigin fjár. Tölugildi allra þessara liða, að undanskildum áhrifum hlutdeildarfélaga, eru ósamanburðarhæf við sömu liði fyrra árs vegna upptöku evru sem uppgjörsgjaldmiðils og tengdra ákvarðana. Ég hygg, að þeir sem urðu í fyrra að sitja undir kynningu á áhrifum gjaldmiðilsbreytingarinnar, hafi fengið sig fullsadda á þeim ósköpum. Lítum á liðinn fjármagnsgjöld í þrengri merkingu, þ.e.a.s. án þess að tekið sé tillit til áhrifa gengisbreytinga; þau urðu 5,0 m€. Séu þau skoðuð í samhengi við vaxtaberandi skuldir að fjárhæð um 136 m€ í lok ársins, eins og fram kemur í efnahagsreikningi (bls.7 ), held ég að megi álykta, að við höfum búið við góð lánskjör. Næst er upplýst um áhrif hlutdeildarfélaga; þau urðu neikvæð um rúml. 2,4 me. Þetta er óvenjulega slæm útkoma. Að langstærstum hluta er þarna um að ræða áhrif þess á rekstur félags okkar í Síle (Deris S.A.), að vegna skæðrar veirusýki - ISA – sem fyrst varð vart 2007, varð að slátra stórum hluta eldisfisks í Síle af Atlantslax-tegund. Meginhluti fjárhagstjónsins lenti á árinu 2009. Engin röskun varð á silungseldinu. Endurreisn laxeldisins er í fullum gangi og spáð mjög góðri afkomu þegar á næsta ári. Þetta áfall, sem Sílemenn urðu fyrir hefur orðið til þess að efla mjög samkeppnisstöðu dótturfélags okkar, Stofnfisks, sem við eigum 65% hlut í. Tekjur Stofnfisks á árinu, en þær eru innifaldar í tekjum samstæðunnar, námu 4,6 m€ og hagnaður rúml. 1,1 m€. Meginhluti tekna Stofnfisks stafar af sölu laxahrogna til eldisfyrirtækja, sem stendur aðallega í Síle.

          Við skulum nú virða fyrir okkur það helsta, sem efnahagsreikningarnir í árslok og ársbyrjun segja okkur um breytingar á efnahagslegri stöðu fyrirtækisins. Eiginfjárhlutfallið, þ.e. hlutfalllið milli eigin fjár og alls fjármagns, hækkaði á árinu úr 40,9% (eftir að hafa breyst úr 42,3% við leiðréttingu á “eignarhlut í hlutdeildarfélögum”) í 46,0%. Svo til engin breyting varð á bókvirði fastafjármuna. Því má segja, að þessi tiltölulega mikla hækkun eiginfjárhlutfalls endurspegli það hvort tveggja, að stórum hluta hagnaðar hafi verið haldið eftir í fyrirtækinu, og að náðst hafi að lækka hreina skuld félagsins. Ég rifja upp, að með hreinni skuld er átt við samtölu skulda að frádregnum veltufjármunum. Af 13,0 m€ hagnaði var einungis 0,8 m€ úthlutað í arð. Um hreina skuld er það að segja, að hún lækkaði á árinu úr 128,9 m€ í 113,7, þ.e. um 15,2 m€ eða 11,8%. Það hefur verið lögð áhersla á að lækka skuldir. Sama viðhorf er í fyrirrúmi á þessu ári. Það mun vekja athygli, við nánari lestur ársreiknings, hversu gífurlega stór hluti vaxtaberandi skulda er sýndur sem skammtímaskuldir, alveg eins var í fyrra. Þar er um að kenna vanmætti bankakerfisins. Ég held, að við njótum bestu fyrirgreiðslu, sem kostur er á. Formlegt ástand skulda er í dag orðið mun betra en var um síðustu áramót. Daginn sem stjórn félagsins undirritaði ársreikninginn var gengið frá framlengingu 43ja m€ skammtímalána í lán til frá 5 til 15 ára. Þetta er tæpl. 70% þeirrar fjárhæðar, sem vaxtaberandi skammtímalán eru sögð vera í ársreikningnum. – Áður en ég skil við skuldamál félagsins, vil ég rifja upp, að í ársreikningi fyrir árið 2008 var þess getið, að færðar hefðu verið til gjalda og skuldar við stóru bankana þrjá tæpl. 3 m€, sem var mesta áætlað tap okkar á framvirkum gjaldmiðlasamningum, sem voru óuppgerðir við fall bankanna haustið 2008. Við höfðum, eins og mörg önnur sjávarútvegsfyrirtæki, ætlað að firra okkur tapi, sem hlytist af því, að krónan endurheimti eitthvað af þeim styrk, sem hún hafði misst í mars (um vorið) 2008. En árið 2009 leið, án þess þessi skuldamál yrðu leidd til lykta. Það gerðist svo í síðasta mánuði, að gengið var frá málum við NIB, en hann hafði verið með rúmlega helming (57%) umsvifanna. 

          Ég ætla nú að gera fastafjármunina okkar lítillega að umtalsefni. Ég vakti rétt áðan athygli á því, að á árinu hefði svo til engin breyting orðið á heildarmatsvirði þeirra. Sama á við um hina helstu einstöku liði. Fastafjármunir, þ.e. fasteignir, fiskiskip og búnaður, áhöld og tæki voru í árslok metin á 96,3 m€. Til fjárfestinga í nýjum framleiðslutækjum var ráðstafað 10,6 m€, sem svo vill til að er nokkurn veginn sama fjárhæð og afskriftir. Helsta verkefnið var endurbygging mjöl- og lýsisverksmiðju á Vopnafirði; þar hefur verið leitast við að koma fyrir öllum nýtilegum tækjum úr verksmiðjunum, sem fyrir voru á Vopnafirði og í Reykjavík. Annað mikilvægt verkefni lýtur að endurbótum og aukningu afkastagetu fiskiðjuversins á Vopnafirði, sem fæst við vinnslu uppsjávarfisks. Tilgangurinn er fyrst og fremst að gera kleift að vinna makríl í aðrar afurðir en mjöl og lýsi, en um leið batnar aðstaða til að auka verðmæti síldaraflans. Meirihluti þessarar fjárfestingar fellur á yfirstandandi ár. Þá verður að nefna tæplega 1 m€ fjárfestingu í nýrri, öflugri snyrtilínu frá Marel, sem komið var fyrir hér í Norðurgarði í vinnsluhléi um áramótin. Hún leysir af hólmi útslitna 13 ára gamla línu. Hún er fyrst og fremst ætluð til vinnslu á ufsa, en getur líka nýst til að fjarlægja bein úr karfaflökum. Fjárútlátin skiptast nokkurn vegin jafnt á árin 2009 og ´10.

     Lítum næst á eignaliðinn óefnislegar eignir. Tæplega 99% þessarar fjárhæðar, þ.e. 133,9 m€, er til kominn við kaup félagsins á varanlegum aflaheimildum. Að auki eru svo aflaheimildir, sem félagið hefur áunnið sér með veiðireynslu, svo sem á t.d. við um stóra hluta aflahlutdeildar í úthafskarfa og kolmunna. Frá því að byrjað var að gera upp í evrum, í ársbyrjun 2008, hefur þessi eignaliður staðið óbreyttur í evrum. Það þýðir, að félagið hefur hvorki keypt né selt aflahlutdeild á þessu tímabili. Umreiknað í krónur er bókvirðið 24.033 milljónir í lok 2009. Í árslok 2007 var staðfest, að þessi eignaliður væri hóflega metinn á grundvelli upplýsinga frá LÍÚ um kauptilboð eða verð í síðustu viðskiptum. Vegna vöntunar á sams konar upplýsingum hefur um tvenn síðustu áramót verið nauðsynlegt að beita þeirri aðferð við svokallað virðisrýrnunarpróf að meta núvirði væntanlegs sjóðsflæðis rekstrartengdra eininga. Spurt var, hvort með sjóðsflæðinu tækist að endurheimta samtölu bókverðs aflaheimilda og viðkomandi rekstrarfjármuna. Báðar rekstrareindir fyrirtækisins, þ.e.a.s. botnfiskhlutinn og uppsjávarfiskhlutinn stóðust prófið. Þess má geta, að bókvirði kvóta um síðustu áramót umreiknað í krónur er aðeins um helmingur af verðmæti allra aflaheimilda félagsins í lok 2007 samkvæmt LÍÚ- tölunum. (Síðan þá hefur að vísu flest verið á huldu um verð aflaheimilda í viðskiptum). Í ársreikningnum er gerður sérstakur fyrirvari um matið á aflaheimildunum, sem hljóðar svo: Við matið á virði aflaheimilda hefur ekki þótt fært að taka tillit til hugsanlegra áhrifa þess, að yfirlýst fyrirætlun ríkisstjórnar um innköllun og endurúthlutun aflaheimilda komi til framkvæmda. – Þarna er vísað til óvissu um, hvaða breytingar verði gerðar á kerfi fiskveiðistjórnunar í náinni framtíð. 

          Óvinir núverandi fiskveiðistjórnkerfis hafa hæðst mjög að útgerðarmönnum fyrir að að hafa notað sér ótæpilega boð bankamanna um girnileg lán til að fjármagna kaup á aflaheimildum, þannig að þeir séu nú kaffærðir í skuldum, sem þeir geti ekki unnið sig út úr. Ég held, að forráðamenn HB Granda geti ekki tekið þessi ámæli til sín. Því fer samt fjarri, að ræst hafi allar væntingar, sem gerðar hafa verið í tengslum við kaup á kvóta eða ávinnslu kvótaréttinda. Þannig getum við harmað stórfellda skerðingu veiðiheimilda í t.d. úthafskarfa og kolmunna, sem stafar einfaldlega af smækkun viðkomandi stofna á okkar veiðisvæði, og gildir þá einu, hvort um er kenna ofveiði eða breytingum á búsvæði eða lífsstíl. Og mér hefur ekki staðið alveg á sama um reynslu okkar í samskiptunum við loðnu. Ég hef áður á aðalfundi, síðast í fyrra, rakið raunir okkar. Ég ætla nú að endurtaka áðursagt og bæta heldur í. Staðan er sú, að við erum skráð fyrir 18,7% aflahlutdeild í loðnu. Þar af fengum við 12,2 % í tvennum viðskiptum árið 2004, þar af 10,7 við kaup á HB & Co hf. Á þessum tíma, og reyndar líka 3 árum síðar kostaði 1% aflahlutdeild 300 mkr. þannig að við ráðstöfuðum 3.660 mkr til kaupa á loðnukvóta. Þessi fjárhæð er mér minnisstæð. Á 10 ára tímabili sem lauk vorið 2005 var meðalársafli landsmanna rúm 870 þúsund tonn. Síðustu 5 vertíðar hefur meðalársaflinn numið aðeins 155 þús. tonnum; einungis tæplega fimmtungur (17,8%) af fyrri afla. Í fyrra var aflinn svo til enginn, eins og ég sagði áðan, en á nýafstaðinni vertíð mátti veiða um 110 þús. tonn. Þar af komu í okkar hlut 20.500 tonn. Mér hefur undanfarin ár fundist sem við ættum talsvert inn hjá náttúrunni eða þá, að okkur hefðu orðið á hrapalleg mistök, þegar við áður fyrr birgðum okkur upp með loðnukvóta. En hins vegar hefur það gerst okkur til hagsbóta, ef marka má vertíðina í ár og í hitteðfyrra, að við þurfum miklu færri tonn af afla, miklu smærri úthlutun, til þess að ná viðunandi árangri heldur en áður var. Eftir ýmsar tæknilegar endurbætur getur okkur tekist miklu betur en áður að nýta aflann í arðsamar afurðir. Síðasta vertíð heppnaðist þannig afbragðsvel. Ætla má, að fob verðmæti afurðanna hafi numið um 16

millj.€, jafnvirði um 2.200 m.kr. með EBITDA-framlagi upp á yfir 50%. 

          Þetta var nú kannski útúrdúr, þetta með kvótakaup okkar áður fyrr, í samhengi við fullyrðingar um, að gráðugir útvegsmenn hafi farið sér að voða í kvótakaupum og um leið dæmt sig úr leik sem óhæfir til að gera út til fiskveiða. Ég vil nú endurtaka: við fórum yfir í evrur með reikningskil okkar frá og með upphafi árs 2008, þegar gengi krónunnar var firnahátt. Á sama hátt eignaliðir eins og veiðiheimildir og fiskiskip voru umreiknuð í evrur, gerðist það sama um eigið fé félagsins. Afleiðing þess er sú, að eiginfjárhlutfallið mælist mun hærra en verið hefði, ef við hefðum haldið áfram að semja reikningsskil í krónum. Um síðustu áramót var eiginfjárhlutfallið 45%, en hefði verið 13% í krónuuppgjöri. Þarna er þó vissulega verið að lýsa sama raunveruleikanum. Það er auðvitað brýnt að forðast, að eign sé ofmetin sem og að ofmetnast af háu gildi svona kennitölu. Árið áður, í lok 2008, var gildi kennitölunnar 41% í okkar opinbera evru-uppgjöri, en einungis 6% í okkar einka krónu-uppgjöri. Í nýbirtu yfirliti Hagstofu Íslands um sjávarútveg Íslendinga kemur fram, að fyrir sjávarútveginn í heild stóð þetta hlutfall í mínus12% í lok 2008. Langflest fyrirtækjanna gera upp í kr. Við mat á árangri eigin fyrirtækis getur verið gagnlegt að bera eigin kennitölur við kennitölur annarra fyrirtækja, keppinautanna. En það er ljóst, að slíkur samanburður getur verið annmörkum háður. Taki samanburðurinn einungis til stærða úr rekstrarreikningi, ætti mismunur á uppgjörsmynt ekki að trufla. Áhugavert fannst mér, að sjá nýlega birtar á netinu upplýsingar úr reikningsskilum Síldarvinnslunnar hf. og Loðnuvinnslunnar hf. fyrir síðasta ár, þar sem m.a. kom fram að EBITDA-hlutfall hins fyrrnefnda hefði verið 39% og hins síðara 23,5%. Það er orðið fágætt að sjá reikningsskil sjávarútvegsfyrirtækja á vef Kauphallarinnar, enda hefur HB Grandi um langt skeið verið þar einskipa með hlutabréf sín. En þess hafa verið dæmi, að félög hafi orðið að birta reikningsskil sín vegna skráðra skuldabréfaflokka.

          Nú ætla ég fjalla um ávöxtun hlutabréfaeignar í HB Granda, sem hlýtur að vera okkur hugstætt málefni. Það kom fram áðan, að arðsemi eða ávöxtun eigin fjár hefði verið 10,8%. Þetta eru hreinar tekjur í mikilsvirtum gjaldmiðli í hlutfalli við fullmetinn eignarstofn. Það þyrfti að draga frá tölunni verðbólgu á evru-svæðinu, sem mun hafa verið innan við 1% á árinu, til þess að fá stærð sambærilega við íslenska vertryggða vexti. Þetta virðist mér vera hin sæmilegasta ávöxtun. En fyrir hinn einstaka hluthafa er þetta að vissu leyti sýnd veiði en ekki gefin! Hluthafinn fær ekki í árslok senda greiðslu, sem nemur hlut hans í hagnaði ársins. Hann bíður þess að fá sendan þann arð, sem félaginu þóknast að úthluta og ákveður svo, hvenær tími sé kominn til að selja hlut sinn. Sá sem hefði keypt hlut í félaginu í ársbyrjun 2009, tekið við úthlutuðum arði í maímánuði og selt hlut sinn svo í lok ársins, hefði ekki náð viðlíka árangri. Síðustu skráð viðskipti með hlutabréf í félaginu á árinu 2008 fóru fram á genginu 10, en síðustu viðskiptin 2009 á genginu 5,2. Þarna hefði átt sér stað gríðarlegt sölutap. Þegar tekið hefur verið tillit til móttekins arðs og verðbólgu á árinu, kemur í ljós, að ársávöxtun hefur verið neikvæð um 50,8%. Sem betur fer er þetta eitthvert versta tilvik, sem hefði getað átt sér stað. Viðskipti urðu með bréf félagsins einungis 8 sinnum á árinu, og var vegið meðalgengi 6,89. Það sem af er yfirstandandi ári (til 19/4) er heildarveltan orðin 101 þús. kr í 5 viðskiptum og gengið hefur þokast upp í 10 kr. á hlut. Mér sýnist þróunin bera því vitni, að mjög takmarkaður áhugi sé orðinn á félaginu sem fjárfestingarkosti meðal þeirra, sem ekki eru í núverandi hluthafahópi. Ef til vill hefur ógnin af innköllun aflaheimilda ráðið þar einhverju um. Við skulum nú taka fyrir hið miklu áhugaverðara mál að glöggva okkur á arðsemi hluthafa yfir lengri eignarhaldstíma en eitt ár eða svo. Ég bregð nú upp mynd sams konar þeirri, sem við virtum fyrir okkur í fyrra; (bætt hefur verið við 1 ári). Myndin sýnir þá raunávöxtun, sem sá hluthafi hefur notið, sem keypti hlut í félaginu í lok einhvers áranna 1989 til 2008 og hefur átt hlutinn samfleytt til ársloka 2009, þegar hann selur hlutinn á genginu 10. Þetta gengi 10 er tilbúin tala (ég sagði áðan, að síðasta verð ársins hefði verið 5,2) ákveðin af handahófi, en er þó það gildi sem ég get varla hugsað mér, að við færum niður fyrir, ef linnti þeirri sérstöku óvissu, sem við búum nú við. Lítum á töluna 8,3% við árið 1992. Hún segir að sá, sem keypti hlut í félaginu í lok þess árs og hefði svo losað sig við það við lok árs 2009, hefði notið 8,3% ávöxtunar að meðaltali allan eignartímann. Við sjáum svo hvað þeir upplifðu, sem komu síðar inn í félagið. Sá sem keypti árið 1997 hefur fengið 5,2% ávöxtun, og sá sem keypti á árslok 2009, þegar Kaupþing banki hafð drifið gengið upp í 12,5, hefur orðið að sætta sig við neikvæða ávöxtun upp á tæp 15% árlega. Við skulum nú líta á nýja mynd, þá síðustu sem ég nota, og staldra stutt við. Þarna sjást 3 talnaraðir. Sú í miðjunni er samantekt úr myndinni, sem fyrir var. Bætt hefur verið tveim tilvikum um gengi í lok eignartíma, þ.e. að árinu 2009 hafi lokið annars vegar með genginu 9, hins vegar með genginu 12. Þeir sem keyptu hlutabréf á fyrstu árunum eftir 1992, þegar bréfin voru tekin til skráningar á Verðbréfaþinginu, koma þokkalega út. Annars er enginn glæsibragur á þessum tölum; öðru nær. Það blasir við, þegar litið er til þess, að á þessu tímabili, sem um er fjallað, gáfu verðtryggð spariskírteini ríkissjóðs af sér ávöxtun, sem sveiflaðist nokkuð þétt um 5% á ári. 

          Reynsla okkar er í takt við það sem aðrir í greininni hafa verið að upplifa: Afkoma sem ekki hefur uppfyllt væntingar. Vonbrigði með, að ekki hafi tekist að byggja upp sterkari fiskstofna og þá að ná árangri í leitinni að auðlindarentunni. Ég leyfi mér að vitna í 2 rannsóknir, sem varpa skæru ljósi á það sem hefur verið að gerast í tíð kvótakerfis. Önnur er skýrslan: Sjávarútvegur í Kauphöllinni: saga og greining, er eftir þá dr. Friðrik Má Baldursson og Stefán B. Gunnlaugsson, útgefin í nóv. 2004. Hin er ritgerð dr. Ásgeirs Danielssonar: Íslenskur sjávarútvegur – auðlindin, rentan og hagvöxtur, Fjármálatíðindi, seinna hefti 2004. Þeir Friðrik og Stefán tóku sér fyrir hendur að útskýra fækkun sjávarútvegsfyrirtækja í Kauphöllinni. Þeir fundu út m.a.: “Afkoma skráðra sjávarútvegsfyrirtækja hefur verið slök og verri en afkoma mikilvægustu atvinnugreinanna í Kauphöllinni. Slök afkoma er ein mikilvægasta ástæðan fyrir litlum áhuga fjárfesta” (bls. 18) Eftir Ásgeiri ætla ég aðeins að hafa eftir nokkur orð úr ágripi hans: “Þótt kvótakerfið hafi tryggt sig í sessi eru margar vísbendingar um að það eigi nokkuð í land með að komast í jafnvægi. Verð aflaheimilda er hátt og tekur mið af skammtímajaðarhagnaði. Engar marktækar vísbendingar eru um að fiskveiðistjórnun hafi enn leitt til marktækrar auðlindarentu í fiskveiðum. Vísbendingar eru um að markaðir fyrir aflaheimildir taki einungis að takmörkuðu leyti tillit til fiskifræðilegra og hagfræðilegra upplýsinga um framtíðarhorfur fiskistofna – a.m.k. gera þeir það öðruvísi en einföld fiskihagfræðileg líkön gera ráð fyrir.” (bls. 100) 

           Árið 2004 kom til framkvæmda ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða um veiðigjald. Auðlindanefnd undir forystu dr. Jóhannesar Nordal hafði í skýrslu sinni fjórum árum áður lýst þeirri skoðun, að “greiðsla fyrir afnot af auðlindinni geti stuðlað að því að sátt geti tekist um stjórn fiskveiða, enda verði sú gjaldtaka ákveðin með hliðsjón af afkomuskilyrðum og uppbyggingu sjávarútvegsins og þeirri óvissu sem hann á við að búa, m.a. vegna ófyrirsjáanlegra breytinga á aflabrögðum og vegna alþjóðlegrar samkeppni, þ.á.m. þau skilyrði sem sjávarútvegur annarra þjóða býr við” (bls. 42). Nefndin lýsti svo tveim leiðum til gjaldtöku: svonefndri fyrningarleið og veiðigjaldsleið.                         

Veiðigjaldsleiðin varð sem sagt fyrir valinu. Samkvæmt hinum nýju lagaákvæðum skyldi heildarfjárhæð gjalds fyrir veiðiheimildir, sem lagt skyldi á flotann við upphaf fiskveiðiárs, vera ákveðin sem hundraðshluti af vissri afkomustærð flotans á heilu ári, sem lauk í lok apríl sama ár og viðkomandi fiskveiðiár hæfist. Þessi afkomustærð er heildaraflaverðmæti að frádregnum reiknuðum olíukostnaði, reiknuðum launakostnaði á sama tímabili og reiknuðum öðrum rekstrarkostnaði (ég hef víxlað röð tveggja síðasttöldu kostnaðarliðanna). Þessir reiknuðu kostnaðarliðir voru byggðir á rauntölum frá árinu 2000 fyrir olíu og annan kostnað og uppreiknaðir með hjálp viðeigandi vísitalna; launaliðurinn skyldi reiknaður sem 39,8% af aflaverðmæti. Heildarveiðigjaldið skyldi svo reiknað sem 9,5% af afkomustærðinni. Í heildarfjárhæðina er svo deilt með fjölda þorskígilda á bakvið aflaverðmætið. Talan, sem út var fundin sl. sumar var kr. 3,47. Þessi tala, eða einingarverð, var svo margfölduð með fjölda úthlutaðra þorskígildistonna hvers kvótaþega á kvótaárinu, sem nú stendur yfir. Til viðbótar reikningi að fjárhæð 99 mkr sem HB Grandi fékk í september, til greiðslu í þremur hlutum þangað til næstkomandi 1. maí, er svo von á reikningum vegna úthlutunar á öðrum tegundum, um það bil 46 mkr, svo að samtals gerir 1 ár, yfirstandandi fiskveiðiár, 145 mkr. í veiðigjald lagt á HB Granda. Á fyrsta fiskveiðiárinu 2004-5 var gjaldið 6%, svo skyldi það hækka í áföngum upp í hina aðstefndu marktölu. Vegna skerðingar á þorskkvóta á sínum tíma og af öðrum áþekkum ástæðum var svo verulega slegið af gjaldinu sem greiða skyldi tvö síðastliðin kvótaár.

Út frá hlutdeild HB Granda í heild veiðiheimilda, sem er á milli 10 og 11%, má ætla, að vegna yfirstandandi veiðiárs verði innheimtur um 1,5 makr í veiðigjald hjá flotanum í heild. Ég þykist hafa orðið var við, að það hafi farið framhjá sumum andstæðingum núverandi kvótakerfis, að veiðigjald sé yfirleitt lagt á. Öðrum kann að finnast lítið til þess koma; það gefi svo lítið af sér. Rifja má upp, að í nokkur ár fyrir hrun hefur mátt kenna lélegri afkomu, grundvallaðri á stefnu stjórnvalda í gengismálum, um það, að ekki tókst að ná meira fé út úr sjávarútveginum með þessum beina hætti heldur en raun bar vitni um.

Veiðigjaldið er staðreynd, sem þorri útgerðarmanna virðist hafa sætt sig við, ef á annað borð megi reikna með einhverjum afrakstri umfram það sem er sanngjarnt með hliðsjón af áhættu. Sú afstaða felur vissulega í sér viðurkenningu á því að útgerðaraðilar, sem notið hafa úthlutunar veiðiheimilda, hafi ekki óafturkallanlegt forræði yfir veiðiheimildum. 

Það mun vera talinn kostur við veiðigjaldið, að það gefur ekki færi á undanbrögðum; maður fær ekki úthlutað aflamarki nema gjaldið hafi verið greitt; og ekki verður séð, að það freisti til skaðlegrar hegðunar. Viðleitni einhvers eins aðila til að lækka gjaldstofninn bæri engan árangur, þar sem fjárhæð gjaldsins hverju sinni byggist á afkomu sjávarútvegsins sem heildar. Þar sem afkoma einstakra hluta sjávarútvegs getur þróast á ólíkan hátt, getur hins vegar komið til mismununar milli einstakra greina; því verði auðlindarenta innheimt af þeim, sem engrar slíkrar hafa notið.- Það er, finnst mér, einn megingalli á forskriftinni, sem notuð skal af Fiskistofu við útreikning á veiðigjaldinu; það er vöntun á skilgreiningunni á “öðrum kostnaði”, sem hefur miklu hlutverki að gegna. Í lögin er sett fjárhæðin 17.568 mkr, “sem svo taki breytingum miðað við vísitölu neysluverðs frá meðaltali ársins 2000 til meðaltals tímabils”, sem útreikningur gjaldsins er byggður á. Vel má vera, að í reiknilíkaninu sé verið að nálgst afkomustærðin Ebitda, rekstrarhagnað fyrir frádrátt afskrifta. – Sú spurning vaknar, hversu hátt er þetta 9,5% gjald, og þá helst í samanburði við almennan tekjuskatt fyrirtækja, sem er 18%? Veiðigjaldið er frádráttarbært gagnvart tekjuskatti, og við eðlilegar aðstæðu leggst það á hærri stofn en tekjuskattur. Í litlu dæmi, sem ég hef snarað upp, hef ég reiknað með að veiðigjaldið legðist á Ebitda. Útkoma dæmisins var sú, að veiðigjaldið jafngilti fyrir þetta ímyndaða fyrirtæki 12,5% viðbót við 18% tekjuskattinn, en þarna er ekki tekið tillit til þess, að gjaldið og tekjuskatturinn skulu greidd á mismunandi tíma.

Ef það sjónarmið vegur þungt að baki yfirlýstum áformum um innköllun veiðiheimilda að ná meira fé út úr sjávarútveginum, þá leyfi ég mér að benda á að sú leið gæti verið greiðfær að hækka veiðigjaldið, ef réttmætt þætti vegna fyrirsjáanlegs varanlegs afkomubata í sjávarútvegi.

Það er komið að lokum þessarar skýrslu. Á fundinum verður lögð fram tillaga stjórnar um greiðslu arðs, sem er 12% nafnverði hlutafjár. Viðleitni til að lækka skuldir togast nokkuð á við óskina um að auka arðgreiðslur. En ef tekst að halda í horfinu um afkomu, þá er að verða tímabært að hækka arðgreiðslur verulega, í ljósi þeirrar stefnu um visst hlutfall samsafnaðs arðs af samsöfnuðum hagnaði sem hér hefur verið haldið á lofti. Vonandi verð hægt að hefjast handa á næsta ári. – Svo er hér á ferðinni tillaga um heimild stjórnar til að kaupa eigin hluti. Hún er sama efnis og tillaga, sem samþykk t hefur verið árlega um langt skeið.

Góðir fundarmenn. Ég hef lokið flutningi skýrslu minnar. Fyrir hönd stjórnar félagsins færi ég öllum starfsmönnum félagsins kærar þakkir fyrir vel unnin störf.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir