FréttirSkrá á póstlista

26.04.2010

Eldgosið hefur áhrif á sjávarútvegssýningarnar í Brussel

Sjávarútvegssýningarnar European Seafood Exposition (ESE) og Seafood Processing Europe (SPE) hefjast í Brussel í Belgíu í fyrramálið og munu þær standa yfir næstu þrjá dagana. Fjöldi íslenskra fyrirtækja tekur að venju þátt í sýningunum en meðal þeirra er HB Grandi sem tekið hefur þátt í ESE-sýningunni frá árinu 2005.

,,Sýningin í Brussel hefur verið ákaflega vel heppnuð mörg undanfarin ár en núna er nokkur óvissa um það hvernig þátttakan verður. Eldgosið í Eyjafjallajökli hefur lamað flugsamgöngur í Vestur-Evrópu og þótt það sé nú búið að opna flugvelli að nýju þá höfum við heyrt að eitthvað sé um afboðanir. Það verður bara að koma í ljós hvernig þátttakan verður þegar sýningin hefst,“ segir Svavar Svavarsson, markaðsstjóri HB Granda, sem hélt ásamt 10 öðrum starfsmönnum félagsins með flugi frá Keflavík til Brussel fyrr í dag. Þrír aðrir starfsmenn HB Granda fóru til Brussel um sl. helgi til þess að fylgjast með uppsetningu sýningarbássins og vinna að undirbúningi vegna sýningarinnar þannig að alls verða 14 starfsmenn HB Granda á sjávarútvegssýningunni að þessu sinni. Sýningarbás HB Granda er í sýningarhöll 6 og er hann númer 839-1.

Að sögn Svavars gekk það ekki þrautalaust fyrir þremenningana að komast til Brussel um helgina. Þeir óku til Akureyrar á föstudagskvöld og komust til Brussel sólarhring síðar eftir millilendingar í Glasgow og Kaupmannahöfn.

,,Við vorum einnig undir það búin að fara svipaða leið og það var ekki fyrr en í gærkvöldi að sá möguleiki var viðraður að Keflavíkurflugvöllur kynni að verða opnaður eftir hádegi í dag,“ segir Svavar Svavarsson.

Á heimasíðu sjávarútvegssýninganna í Brussel kemur fram að búist er við að meira en 1.600 sýnendur frá um 140 þjóðlöndum taki þátt í ESE-sýningunni. Mun færri taka þátt í SPE-sýningunni, sem er vettvangur tækjaframleiðenda, en þar var gert ráð fyrir að fulltrúar rúmlega 200 fyrirtækja frá 22 þjóðlöndum myndu standa vaktina næstu dagana.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir