FréttirSkrá á póstlista

16.04.2010

Algjör óvissa um útflutning á ferskum fiski með flugi

,,Við eigum ein sjö tonn af ferskum flökum á Keflavíkurflugvelli sem bíða þess að komast í flug en staðan er vægast sagt mjög óljós. Við erum í stöðugu sambandi við viðskiptavini okkar í Evrópu. Ef einhverjar glufur opnast þá munum við nýta þær, þ.e.a.s. ef kaupendurnir eru sáttir við þær lausnir sem í boði kunna að vera,“ segir Sólveig Arna Jóhannesdóttir, sölustjóri ferskfiskafurða hjá HB Granda, en útflutningur á ferskum fiski með flugi er nú í uppnámi eftir að flugsamgöngur á milli Íslands og Vestur-Evrópu lömuðust í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli.

Eldsumbrotin, sem hófust að morgni sl. miðvikudags, hafa nú þegar haft mun víðtækari og alvarlegri afleiðingar í för með sér en nokkurn gat órað fyrir. Þótt eldgosið sé ekki talið mjög stórt í sniðum þá náði það að lama svo til allar flugsamgöngur í Vestur-Evrópu á innan við tveimur sólarhringum. Askan, sem kemur frá eldstöðinni, hefur borist með háloftavindum vestur yfir meginland Evrópu og af öryggisástæðum hefur þúsundum flugferða verið aflýst á svæðinu frá Norður-Noregi, suður til Þýskalands og Frakklands og allt austur til Póllands og Austurríkis.

,,Það er algjör óvissa um framhaldið. Við biðum í ofvæni í gærmorgun eftir fréttum af því hvort flugheimildir fengjust. Við áttum ferskan fisk sem átti að fara annars vegar með Bluebird og hins vegar Icelandair á markað í Evrópu. Bluebird fékk flugheimild sem síðan var afturkölluð og fiskurinn er því enn á Keflavíkurflugvelli,“ segir Sólveig Arna en að hennar sögn voru horfur á því nú fyrir hádegið að hugsanlega yrði opnað fyrir flug til Skotlands en það var þó óstaðfest þegar rætt var við hana.

,,Við höldum öllum möguleikum opnum. Meðal þess, sem rætt hefur verið um, er að fljúga með fiskinn til einhvers flugvallar sem kann að opnast og flytja hann þaðan með flutningabílum til kaupendanna. Fyrir því þarf að sjálfsögðu samþykki þeirra. Vandinn er sá að kaupandi, sem vildi gjarnan fá ferskan fisk í dag, hefur hugsanlega takmarkaðan áhuga á sambærilegri sendingu á morgun. Málið er í raun miklu flóknara en það því nú erum við komin að þeim tímapunkti að það þarf að taka ákvarðanir um það hvernig á að haga vinnslunni hér heima og fyrir hvaða markaði á að vinna fiskinn,“ segir Sólveig Arna Jóhannesdóttir.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir