FréttirSkrá á póstlista

15.04.2010

Munu vinna makríl til manneldis á komandi vertíð

,,Við stefnum að því að hægt verði að vinna makríl til manneldis hér í uppsjávarfrystihúsinu þegar veiðar á síld og makríl hefjast en fram að þessu hefur makrílaflinn farið til bræðslu. Með því að frysta makrílinn fyrir manneldismarkaði ætti að verða hægt að fá mun hærra verð fyrir afurðirnar því frystur makríll hefur selst á mjög háu verði,“ segir Magnús Róbertsson, vinnslustjóri hjá HB Granda á Vopnafirði.

Ef allt gengur að óskum ættu veiðar íslenskra skipa á norsk-íslenskri síld og makríl að geta hafist upp úr miðjum næsta mánuði. Að sögn Magnúsar hefur verið unnið að því hörðum höndum í uppsjávarfrystihúsinu að breyta vinnslulínum þannig að hægt verði að vinna makríl jöfnum höndum með síld en undanfarin ár hafa skipin, sem stundað hafa síldveiðar yfir sumarmánuðina, oft fengið mjög mikið af makríl með síldinni og stundum hefur makrílaflinn jafnvel verið uppistaðan í aflanum í einstökum veiðiferðum.

,,Hingað hafa verið keyptar tvær nýjar, alsjálfvirkar flökunarvélar sem nú er verið að stilla upp. Með tilkomu þeirra höfum við yfir að ráða sjö flökunarvélum og þar af eru þrjár alsjálfvirkar. Nýju vélarnar eiga að ráða betur við stærri fisk, s.s. stærri makrílinn, en annars verða flökunarvélarnar notaðar jöfnum höndum til að flaka síld og hausa og slógdraga makríl. Til þess að auðvelda það verk verðum við framvegis með tvenns konar stærðarflokkun, tvo flokkara fyrir síld og tvo flokkara fyrir makríl,“ segir Magnús en að hans sögn er nú einnig verið að setja upp sérstakan sugubúnað við hinar flökunarvélarnar vegna makrílvinnslunnar.

,,Þetta virkar þannig að makrílinn er í hausaður og slógdreginn í beinu framhaldi með sogkrafti,“ segir Magnús Róbertsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir