FréttirSkrá á póstlista

12.04.2010

Kolmunninn genginn norður í færeysku lögsöguna

Faxi RE og Lundey NS eru nú á leiðinni til landsins með um 3.000 tonn af kolmunna en þessi afli hefur fengist á alþjóðlega hafsvæðinu sunnan Færeyja undanfarna daga. Aflabrögðin voru ákaflega róleg fyrstu dagana eftir páska en hafa farið vaxandi enda virðist kolmunninn í auknum mæli vera farinn að ganga norður í áttina inn í færeysku lögsöguna. Ingunn AK er enn á miðunum og var skipið komið með um 1.400 tonna afla í morgun.

,,Við reiknum með að verða komnir til Vopnafjarðar undir morgun en við fórum af miðunum um kl. 20 í gærkvöldi. Þetta er um 400 sjómílna leið,“ segir Albert Sveinsson, skipstjóri á Faxa RE, en að hans sögn var hann að veiðum með skipið rétt norðan við skosku lögsögumörkin.

,,Við fengum mjög gott hol í gær eða um 700 tonn eftir daginn og þar með var aflinn kominn í fullfermi eða um 1.550 tonn. Það er greinilegt að kolmunninn er byrjaður að síast norður á bóginn. Veiðin hefur verið mjög góð í skosku lögsögunni en þar datt aflinn niður hjá færeyskum skipum í gær og þau færðu sig þá norður til okkar. Það fer á verða þröng á þingi á miðunum eins og venjulega á þessum árstíma. Þegar við komum á svæðið þá var þar eitt rússneskt skip að veiðum. Rússarnir eru núna einhvers staðar á milli 20 og 30 talsins og þarna voru átta íslensk skip í gær. Síðan er mikið af skipum að koma úr skosku lögsögunni þannig að þetta er að verða mjög stór hópur,“ sagði Albert Sveinsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir