FréttirSkrá á póstlista

23.03.2010

Fárviðri á kolmunnamiðunum

,,Okkur sækist ferðin seint enda er hér algjört fárviðri, 30 metrar á sekúndu og mikill sjór. Það er ómögulegt að segja til um það hvenær við komum til Akraness en ég ætla að reyna að sigla vestur úr þessu veðri í von um að veðrið sé betra þar,“ sagði Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey NS, er rætt var við hann nú um miðjan dag. Skipið, sem verið hefur á kolmunnaveiðum á alþjóðlega hafsvæðinu vestur af Bretlandseyjum, var þá statt djúpt suður og austur af landinu.

Að sögn Arnþórs var Lundey NS komin á veiðisvæðið fyrir rúmri viku en þá var veðrið að versna til muna.

,,Það hefur verið skítviðri á okkur allan tímann ef einn dagspartur er undanskilinn. Aflinn er um 700 tonn og hann fékkst allur í snælduvitlausu veðri. Veiðin datt niður fyrir nokkrum dögum og svo er að sjá að kolmunninn hafi gengið inn í írsku og skosku landhelgina. Þar hefur verið mjög góð veiði og t.d. er nú mokveiði í skosku lögsögunni sunnan Færeyja,“ segir Arnþór en að hans sögn binda menn nú helst vonir við að kolmunninn gangi sem fyrst á hið svokallaða gráa svæði suður af Færeyjum. Sá kolmunni, sem fengist hefur, er stór og góður að sögn Arnþórs.

Mikið hefur verið haft fyrir kolmunnaveiðunum undanfarna daga samkvæmt upplýsingum Arnþórs og hann segist ekki hafa heyrt af því að hin tvö skip HB Granda, sem eru á kolmunnaveiðum, hafi fengið neinn afla að ráði í yfirstandandi veiðiferð.

,,Þeir á Ingunni AK munu hafa kastað einu sinni í gær frekar en fyrradag en annars hafa menn verið að leita að kolmunna í veiðanlegu magni eða þá haldið sjó vegna veðurs,“ segir Arnþór Hjörleifsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir