FréttirSkrá á póstlista

15.03.2010

Kolmunnaveiðar fara vel af stað

Þrjú skip HB Granda eru farin til kolmunnaveiða og verður ekki annað sagt en að vertíðin fari vel af stað. Ingunn AK var fyrst á miðin og er skipið nú á heimleið með um 1.900 tonna afla eftir tvo sólarhringa á veiðum. Mikið er reyndar haft fyrir veiðunum því miðin eru undan vesturströnd Írlands eða hátt í 700 sjómílna fjarlægð frá Íslandi.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjárvarsviðs HB Granda, var Ingunn komin á miðin um miðnætti sl. föstudags. Faxi RE er nú búinn að vera í rúman sólarhring á miðunum og afli skipsins var kominn í tæplega 800 tonn fyrr í dag. Lundey NS kom á svæðið í morgun.

Loðnuveiðum skipa HB Granda lauk í síðustu viku en kvóti félagsins á vertíðinni var alls 20.500 tonn. Vertíðin var stutt en snörp. Fyrsti loðnuaflinn barst á land á Akranesi þann 18. febrúar og Víkingur AK kom með síðasta farminn til Vopnafjarðar þann 12. mars sl. Allur aflinn fór í hrognaskurð og vinnslu á hrognum fyrir markaði í Japan og Austur-Evrópu. Allt bendir til þess að loðnuvertíðinni sé lokið að þessu sinni. Vonir voru helst bundnar við svokallaða vestangöngu en ekki varð vart við neina loðnu vestur og norður af landinu í heimsiglingu Víkings til Akraness.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir