FréttirSkrá á póstlista

03.03.2010

Glimrandi gott að vera kominn aftur í slaginn

Víkingur AK er nú á leið til Vopnafjarðar með fullfermi af loðnu eða um 1.400 tonn sem fengust í gær og í dag suðvestur af Malarrifi á Snæfellsnesi. Að sögn Magnúsar Þorvaldssonar skipstjóra er þetta fyrsti fullfermistúrinn hjá Víkingi á loðnuvertíðinni. Ákveðið var að senda skipið til veiða í síðustu viku í því skyni að auka líkurnar á að hægt yrði að nýta sem allra mest af loðnukvóta HB Granda til hrognatöku.

Magnús Þorvaldsson er gamalreyndur í hettunni en hann var síðast með Sunnuberg NS þegar hann var fenginn til þess að vera með Víking ef sú staða kæmi upp að nota þyrfti skipið. Magnús var síðast á loðnuveiðum með Víking fyrir tveimur árum en í fyrra var skipið notað til flutninga á makrílafla og fór þá tvo túra með makríl til Færeyja og einn til Vopnafjarðar.

,,Það er glimrandi gott að vera kominn í slaginn að nýju og það þrátt fyrir að það hafi verið skítabræla frá því að við fórum til veiða fyrir tæpri viku,“ sagði Magnús er tíðindamaður heimasíðunnar ræddi við hann í dag. Reyndar gekk erfiðlega að ljúka spjallinu því fyrst er hringt var í Magnús var hann að búa sig undir að kasta og næst þegar samband náðist var verið að dæla úr nótinni í haugabrælu. Því verki lauk um kl. 17 og í framhaldinu var stefnan tekin til Vopnafjarðar og ákveðið var að fara suðurleiðina.

,,Þetta var búið að vera hálfgert bras frá því að við fórum til veiða. Við höfum verið að veiða úr litlum torfum og veðrið hefur ekki hjálpað til. Það var fyrst í dag sem skipin voru að fá ágætis köst og við náðum að fylla með um 400 tonna kasti um 12 mílur suðvestur úr Malarrifinu. Fyrsta fullfermið okkar en áður vorum við búnir að landa tveimur slöttum á Akranesi,“ sagði Magnús Þorvaldsson en þegar hann var spurður að því hvenær hann reiknaði með því að Víkingur myndi koma til Vopnafjarðar með aflann, svaraði hann einfaldlega: ,,Hvaða dagur er í dag? Miðvikudagur? Ætli við verðum ekki komnir á föstudag en annars á ég eftir að skoða það betur.“

Nýjustu fréttir

Allar fréttir