FréttirSkrá á póstlista

25.02.2010

Víkingur AK sendur til loðnuveiða

Í dag var ákveðið að senda Víking AK til loðnuveiða en skipið hefur legið í höfn á Akranesi frá því sl. sumar að það var notað til flutninga á síldarafla.

Ákvörðun um þetta var tekin í morgun og lét skipið úr höfn nú upp úr hádeginu.

Víkingur AK hefur ekki verið gerður út til veiða síðan á árinu 2008 en skipið fór einar tvær ferðir með síldarafla til Færeyja í fyrrasumar. Vel gekk að manna skipið en skipstjóri er Magnús Þorvaldsson sem var m.a. skipstjóri á Sunnubergi NS á sínum tíma.

Ástæða þess að skipið fer nú til veiða að nýju er sú að markmið HB Granda er að nýta loðnukvóta félagsins á vertíðinni að sem mestu leyti til hrognatöku og frystingar á hrognum fyrir Japansmarkaðinn. Þroski hrognanna úr loðnunni, sem nú veiðist í Faxaflóa, er orðinn nægilegur fyrir Japansmarkaðinn og því hefur verið ákveðið að setja fullan kraft í veiðarnar.

Loðnukvóti HB Granda á vertíðinni er um 20 þúsund tonn og í morgun var búið að veiða um 6.500 tonn af þeim kvóta. Loðnuhrognavinnslan er stunduð á Akranesi og Vopnafirði en þangað barst fyrsti loðnuaflinn á vertíðinni í fyrrakvöld er Faxi RE kom þangað með fullfermi.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir