FréttirSkrá á póstlista

25.02.2010

Sjávarútvegsráðherra skoðaði loðnuhrognavinnsluna á Akranesi

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heimsótti í dag loðnuhrognavinnslu HB Granda á Akranesi og kynnti sér starfsemina. Með honum í för voru aðstoðarmaður hans, Jóhann Guðmundsson, og Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar. Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, Jón Helgason, sölustjóri uppsjávarfisks, og Gunnar Hermannsson, vinnslustjóri í hrognavinnslunni, tóku á móti gestunum og sýndu þeim vinnsluferlið.

Loðnuhrognavinnsla og frysting á hrognum hófst á Akranesi um miðja síðustu viku og í gær hófst einnig hrognavinnsla á Vopnafirði eftir að Faxi RE kom þangað með fullfermi af loðnu. Gunnar Hermannsson, vinnslustjóri í hrognavinnslunni á Akranesi, segir að þroski loðnuhrognanna úr loðnunni, sem nú veiðist í Faxaflóa, sé orðinn það mikill að hrognin uppfylli allar kröfur japanskra kaupenda. Alls er nú búið að frysta rúmlega 500 tonn af hrognum á Akranesi. Hrognin úr fyrstu förmunum hentuðu reyndar ekki fyrir Japansmarkaðinn en góður markaður er fyrir fryst loðnuhrogn í ýmsum Austur-Evrópulöndum.

Jón Helgason, sölustjóri uppsjávarfisks hjá HB Granda, segir að góður markaður sé fyrir fryst loðnuhrogn um þessar mundir.  Á síðasta ári var lítið framleitt af loðnuhrognum og því ættu engar birgðir að vera til staðar á markaðnum.  

Norðmenn eru reyndar með drjúgan loðnukvóta í Barentshafi en hrognafylling loðnunnar þar sem og þroski hrognanna verður ekki nægilegur fyrir vinnslu loðnuhrogna fyrr en í seinni hluta marsmánaðar ef að líkum lætur.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir