FréttirSkrá á póstlista

23.02.2010

Hrognaþroskinn alveg á mörkunum

Nú er búið að taka á móti alls um 3.700 tonnum af loðnu hjá HB Granda á Akranesi. Markmiðið er að nýta sem allra mest af aflanum til hrognatöku og frystingar á hrognum fyrir Japansmarkaðinn. Að sögn Gunnars Hermannssonar, vinnslustjóra í loðnuhrognavinnslunni, er þroski loðnuhrognanna enn á mörkum þess að hrognin uppfylli kröfur japönsku kaupendanna.

,,Hrognaþroskinn er nú um 80% en við erum að vinna loðnu sem Ingunn AK kom með hingað til Akraness í fyrrakvöld. Gamla viðmiðunin hjá Japönunum var að hrognaþroskinn yrði að vera a.m.k. 90% en þeir hafa slakað á þeim kröfum í seinni tíð. 80% er nú lágmarkið og það verður bara að koma í ljós þegar við gerum vertíðina upp hve mikið af loðnuhrognunum fer til Japan. Við pökkum öllum hrognum í kassa, þannig að þau eru a.m.k. í réttum pakkningum fyrir Japansmarkaðinn,“ segir Gunnar en að hans sögn er hrognafyllingin í loðnunni nú um 22-23%.

Faxi RE er nú á leið til Vopnafjarðar með fullfermi af loðnu eða um 1.400 til 1.500 tonn. Von er á skipinu til Vopnafjarðar um miðnætti og verður fyrsti uppsjávaraflinn sem berst til Vopnafjarðar eftir að breytingar og endurbætur hófust á fiskmjölsverksmiðju félagsins sl. haust. Afli Faxa mun fara til hrognatöku og frystingar en það hráefni sem til fellur við þá vinnslu fer til framleiðslu á fiskmjöli og –lýsi.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir