FréttirSkrá á póstlista

19.02.2010

Náið fylgst með þroska loðnuhrognanna

Aukning loðnukvótans í gær þýðir að loðnukvóti skipa HB Granda verður um 20 þúsund tonn á vertíðinni. Það er sama magn og nemur aukningu heildarkvótans. Enn er þó von til þess að nýjar loðnugöngur skili sér upp á grunnin við suðurströndina en mestar vonir eru þó bundnar við svokallaða vestangöngu. Gangi það ekki eftir þá verður heildarkvóti íslenskra skipa á vertíðinni um 108 þúsund tonn.

Loðnuhrognavinnsla hófst hjá HB Granda á Akranesi í fyrrakvöld er Ingunn AK kom þangað með 600 tonna afla. Í kjölfarið fylgdi síðan Faxi RE með svipað magn. Góður gangur hefur verið í hrognavinnslunni á Akranesi en að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, verður farið rólega í veiðarnar á næstunni þar sem að þroski hrognanna í loðnunni, sem veiddist fyrr í vikunni, var ekki orðinn nægilegur til þess að hrognin hentuðu fyrir Japansmarkaðinn. Hrognafyllingin var þá um 21%.

,,Aukning kvótans breytir engu um þau áform okkar að ná sem mestu magni í hrognavinnslu. Ingunn AK og Faxi RE eru nú í höfn á Akranesi en Lundey NS mun væntanlega fara til veiða í kvöld með það að markmiði að ná í annan 600 tonna skammt fyrir hrognavinnsluna á morgun. Við munum síðan fylgjast náið með hrognafyllingu og þroska hrognanna næstu daga,“ segir Vilhjálmur.

Í hrognavinnslunni á Akranesi er hægt að hægt að frysta um 100 tonn af hrognum á sólarhring. Afkastagetan í flokkun, skurði og hreinsun og þurrkun á hrognum er hins vegar mun meiri eða sem nemur um 160 til 180 tonnum á sólarhring.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir