FréttirSkrá á póstlista

17.02.2010

Allt klárt fyrir hrognavinnslu og -frystingu á Akranesi

,,Það er allt tilbúið. Við eigum von á fyrsta loðnuaflanum í kvöld og bíðum bara eftir nánari tímasetningu þannig að hægt sé að boða mannskapinn til starfa. Við gerum ráð fyrir að um 30 manns vinni við loðnuhrognavinnsluna og frystinguna á sólarhring og sennilega verðum við með tvískiptar vaktir, a.m.k. til að byrja með,“ sagði Gunnar Hermannsson, vinnslustjóri í hrognavinnslu HB Granda á Akranesi, en þar bíða menn spenntir eftir því að annað hvort Ingunn AK eða Faxi RE komi þangað með fyrsta aflann á loðnuvertíðinni.

Ingunn og Faxi eru nú að loðnuveiðum vestur af Akranesi og það er því ekki langt að fara með aflann. Að sögn Gunnars er óvíst hve mikil hrognafyllingin er í loðnuaflanum sem fengist hefur síðasta sólarhringinn en hann segir þó að þroski hrognanna skipti meira máli en sjálf hrognafyllingin.

,,Hrognin þurfa að vera a.m.k. með svokölluðum 80% þroska til þess að því séu hæf til frystingar fyrir Japansmarkaðinn. Minna þroskuð hrogn eru fryst fyrir Austur-Evrópumarkaðinn,“ segir Gunnar en að hans sögn ráðast afköstin í hrognavinnslunni á Akranesi af frystigetunni en hún er um 100 tonn á sólarhring. Afkastagetan í flokkun, skurði og hreinsun á hrognum fyrir þurrkun og frystingu er þó mun meiri eða um 160 til 180 tonn á sólarhring.

,,Á vertíðunum í fyrra og hittifyrra var ekið héðan með 60 til 80 tonn af loðnuhrognum til Vopnafjarðar á hverjum degi sem hrognavertíðin stóð en í ljósi þess hve lítill loðnukvótinn er að þessu sinni er óvíst að þess þurfi í ár,“ sagði Gunnar Hermannsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir