FréttirSkrá á póstlista

17.02.2010

Á leið til Akraness með 600 tonn af loðnu

Ingunn AK er ná leið til Akraness með um 600 tonn af loðnu sem fengust í tveimur köstum á miðunum norðvestur af Hrauninu eða um 30 mílur vestur af Akranesi. Þrjú skip hafa verið að loðnuveiðum á þessu svæði en auk Ingunnar voru Faxi RE og Álsey VE þar að veiðum í dag.

,,Við vorum komnir á miðin um klukkan sjö í morgun. Við fengum um 150 tonn af loðnu í fyrra kastinu og síðan um 450 tonna kast nú eftir hádegið,“ sagði Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Ingunni, er við náðum tali af honum fyrir stundu.

Að sögn Guðlaugs var um 50 faðma botndýpi þar sem Ingunn var að veiðum en loðnan hélt sig þar á 15-20 faðma dýpi og var því auðveiðanleg í nót.

,,Þetta er sæmilegasta loðna en það kemur samt á óvart að hún er af blandaðri stærð. Mest er um stóra og fallega loðnu en svo eru smærri inn á milli. Hrognafyllingin er ekki orðin eins mikil og við áttum von á en það er þroski hrognanna sem skiptir máli. Það á eftir að koma í ljós hvort hann er orðinn nægilega mikill fyrir Japansmarkaðinn,“ segir Guðlaugur en hann segir sjómenn nú bíða spennta eftir niðurstöðum rannsókna á loðnutorfu sem fundist hefur við suðurströndina. Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson er þar við rannsóknir og að sögn Guðlaugs eru miklar vonir bundnar við að niðurstöður rannsóknanna gefi tilefni til þess að aukið verði við loðnukvótann.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir