FréttirSkrá á póstlista

11.02.2010

Rólegt á gulldeplunni en loðnuveiðar framundan

,,Það má sennilega best orða þetta með því að segja að það er ákaflega rólegt yfir þessum veiðum. Við drögum trollið allan daginn og megum þakka fyrir að ná 100 tonna afla. Í gær fengum við reyndar ekki nema 60 tonn og það er ekki viðunandi árangur,“ sagði Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey NS, er rætt var við hann nú um miðjan dag.

Lundey fór til veiða á gulldeplu í byrjun vikunnar eftir að skip HB Granda höfðu legið í höfn í nokkra daga vegna brælu á miðunum. Að sögn Arnþórs var Lundey komin á miðin að morgni þriðjudags.

,,Við köstuðum á þriðjudagsmorgninum og aflinn eftir daginn var um 100 tonn sem er mjög svipað og fengist hefur síðustu vikurnar. Í gær var árangurinn hins vegar ekki jafn góður. Þetta eru pínulitlir blettir, sem við erum að eltast við, og það skiptir sköpum að hitta á þá. Okkur gekk ekki vel í gær en ég veit að Ingunn AK var þá með um 100 tonna afla,“ segir Arnþór.

Lundey hefur verið að veiðum suður af Skerjadjúpinu en gulldepluveiðarnar hafa lengst af verið stundaðar í Grindavíkurdjúpi. Arnþór segir að í dag og í gær hafi gulldeplan verið að veiðast á um 150 til 170 faðma dýpi, miðað við höfuðlínuhæð, en er rætt var við hann var verið að toga á slóð þar sem botndýpið var 187 faðmar.

,,Það er mjög erfitt að átta sig á því á hvaða leið þessi fiskur er. Hann virðist hanga hér utan í köntunum og það er ómögulegt að segja til um það hvort hann er á leiðinni upp á grunnin eða hvort leiðin liggur frá landi. Skipstjórinn á Huginn VE gafst upp á þessu harki í gær og síðast þegar ég heyrði í þeim þá voru þeir að leita einar 150 mílur suður af landinu,“ segir Arnþór.

Nú styttist í að skip HB Granda fari til loðnuveiða en rætt hefur verið um að Faxi RE fari til veiða um næstu helgi. Arnþór Hjörleifsson á Lundey neitar því ekki að það verði skemmtileg tilbreyting að fara á loðnuveiðar.

,,Maður hefur eiginlega varast að hugsa og mikið um loðnuna en maður kemst ekki hjá því að heyra hvar þau fáu skip, sem nú eru á loðnuveiðum, eru stödd. Loðnugangan virðist vera komin vestur að Grindavík og það verður að teljast til tíðinda,“ sagði Arnþór Hjörleifsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir