FréttirSkrá á póstlista

01.02.2010

Tæplega 17 þúsund tonna loðnukvóti í hlut HB Granda

Sú ákvörðun sjávarútvegsráðherra að heimila veiðar á a.m.k. 130 þúsund tonnum af loðnu á þessari vertíð þýðir að alls koma rétt tæplega 17 þúsund tonn í hlut HB Granda.

Byrjunarkvótinn var ákveðinn eftir að niðurstöður úr rannsóknaleiðangri Árna Friðrikssonar RE lágu fyrir. Samkvæmt því koma 28.431 tonn í hlut norskra skipa. Færeyingar fá 6.500 tonn í sinn hlut og Grænlendingar 4.290 tonn. Alls koma því 90.779 tonn í hlut íslenskra skipa og þar af er kvóti skipa HB Granda 16.954 tonn.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, er stefnt að því að nýta sem mest af loðnukvótanum til hrognatöku en það þýðir að veiðarnar hefjast að öllu óbreyttu ekki fyrr en um eða upp úr miðjum febrúar. Vinnslustöðvar félagsins á Akranesi og Vopnafirði eru mjög vel búnar fyrir hrognavinnslu og Vilhjálmur segir að til standi að nýta þær báðar. Verð á hrognum hefur verið gott undanfarin ár og er útlit fyrir að það haldist einnig hátt á þessu ári. Það ætti því að vera lag til að gera veruleg verðmæti úr þeim takmarkaða loðnukvóta sem þó er búið að úthluta.

,,Það má heldur ekki gleyma því að enn er von til þess að Hafrannsóknarstofnun takist að mæla meira magn seinni hluta mánaðarins þegar loðnan gengur upp á grunnin. Við verðum bara að vona það besta,“ segir Vilhjálmur en hann bendir á að til samanburðar megi geta þess að á árinu 2005, sem var fyrsta starfsár HB Granda í núverandi mynd, hafi loðnukvóti félagsins verið um 144 þúsund tonn.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir