FréttirSkrá á póstlista

26.01.2010

Búnir að ná góðum tökum á gulldepluvinnslunni

Skip HB Granda héldu til veiða á gulldeplu að nýju í gærkvöldi en þau hafa verið í höfn frá því í síðustu viku vegna brælu á miðunum. Nú eru veðurhorfur hins vegar ágætar og Guðmundur Hannesson, verksmiðjustjóri í fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi, vonast til þess að aflabrögðin fari að glæðast því nú fari í hönd sá árstími sem gaf bestan afla á veiðunum í fyrra.

Alls bárust um 2.000 tonn af gulldeplu til Akraness í liðinni viku en auk skipa HB Granda kom Bjarni Ólafsson AK þangað með afla. Samkvæmt upplýsingum Guðmundar er búið að taka á móti um 8.000 tonnum af gulldeplu í desember og janúar og í nóvember bárust þangað um 4.500 tonn af síld.

,,Vinnslan gengur orðið mjög vel. Það munaði verulega um það þegar áhafnir skipanna komust upp á lag með að nýta RSW kælitankana fyrir aflann en menn töldu lengi vel að það væri ekki hægt vegna þess að þessi smái fiskur myndi stífla kælikerfið. Með því að vera með dælurnar á minnsta hraða hefur þetta þó gengið upp. Þá skiptir máli að skipin hafa tekið með sér ferskvatn til að setja í tankana og með því að dæla aflanum hægt úr trollinu hefur minna komið með af sjó. Hér í landi höfum við sömuleiðis náð meiri vökva úr hráefninu áður en það fer inn á pressurnar. Það þýðir að mjölið verður ekki eins salt og ella hefði orðið,“ segir Guðmundur en hann upplýsir að lýsisinnihaldið í gulldeplunni sé sem fyrr mjög hátt. Litlu muni að það sé jafn hátt og mjölhlutfallið.

,,Nú vonum við bara að aflabrögðin glæðist. Ef það gerist þá verður okkur ekkert að vanbúnaði við að setja kraft í vinnsluna,“ segir Guðmundur Hannesson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir