FréttirSkrá á póstlista

21.01.2010

Tæplega 40 manns á starfsfræðslunámskeiðum hjá HB Granda

Þegar gert var hlé á landvinnslu hjá HB Granda vegna jólahátíðarinnar var tíminn notaður til þess að halda starfsfræðslunámskeið fyrir starfsfólk í fiskiðjuverum félagsins. Tæplega 40 starfsmenn sóttu þrjú námskeið af þessu sinni og voru þeir frá alls níu þjóðlöndum.

Að sögn Bergs Einarssonar, sem hefur stjórnað námskeiðshaldinu af hálfu HB Granda, var fyrsta námskeiðið af þessum þremur haldið á íslensku og það sóttu níu Íslendingar og einn Lithái. Annað námskeiðið fór fram á ensku og það sóttu 20 manns af alls sjö þjóðernum. Fimm þeirra eru frá Filippseyjum, fjórir frá Póllandi, fjórir frá Portúgal, þrír frá Víetnam, tveir frá Kína, einn frá Tælandi og einn frá Finnlandi. Á síðasta námskeiðinu voru níu Litháar og fór það fram á þeirra móðurmáli. 

Markmiðið með starfsfræðslunámskeiðum fiskvinnslunar er að auka þekkingu starfsmanna á vinnslu sjávarafla, og gera þá hæfari til allra almennra fiskvinnslustarfa. Námskeiðin eru samtals 40 klukkustundir og taka til allra helstu þátta er varða starfið og starfsgreinina, samkvæmt ákvörðun sérstakrar starfsfræðslunefndar. Þeir starfsmenn, sem sækja námskeiðin, hækka í launum sem svarar til tveggja launaflokka að þeim loknum.

Á námskeiðunum er farið yfir eftirtalin atriði:

Fiskurinn – auðlind í hafinu

Vinnuaðstaða og líkamsbeiting

Öryggi á vinnustöðum

Hreinlæti

Atvinnulífið – starfsfólkið og launakerfin

Samstarf og samskipti á vinnustað

Sjálfstyrking

Fiskvinnslan – Gæðastjórnun

Afurðir og markaðir

Sjávarútvegurinn og umhverfismál

Samskipti þvert á menningarheima

,,Það er reynsla okkar að starfsmennirnir séu yfirleitt mjög ánægðir með starfsfræðslunámskeiðin og að þeir telji að þau auki skilning þeirra á starfinu,“ segir Bergur en hann nefnir sem dæmi að á einu námskeiðanna, sem fram fóru á dögunum, hafi einn starfsmannanna látið þau orð falla að nú þegar hann skilji betur í hverju starf hans er fólgið, þá hafi vinnan um leið orðið mun skemmtilegri. Annar hafi haft á orði að námskeiðið hafi opnað augu sín fyrir þýðingu þess að slaka aldrei á kröfum um hreinlæti og góða umgengni um vinnslusalinn.

Þess má geta að fyrstu starfsfræðslunámskeiðin voru haldin árið 1987 og námskeiðin hafa því verið haldin í alls 23 ár.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir