FréttirSkrá á póstlista

20.01.2010

Ný og fullkomin flæðilína tekin í notkun

Ný og fullkomin flæðilína hefur verið tekin í notkun í fiskiðjuveri HB Granda í Norðurgarði. Nýja flæðilínan er frá Marel og nema fjárfestingar vegna kaupa á búnaði og nauðsynlegum breytingum og endurbótum vegna uppsetningar línunnar um 200 milljónum króna.

Að sögn Torfa Þ. Þorsteinssonar, framleiðslustjóra HB Granda, var tækifærið notað til að setja flæðilínuna upp eftir að hlé var gert á vinnslunni vegna jólaleyfa starfsfólks þann 18. desember sl. Unnið var alla daga aðra en hátíðisdagana um jól og áramót að undirbúningi vegna uppsetningar flæðilínunnar en auk þess var settur upp nýr og mjög öflugur dælukútur og gólf hafa voru lagfærð svo fátt eitt sé nefnt. Sjálf flæðilínan var svo tekin í notkun 11. janúar sl.

,,Uppsetning línunnar gekk mjög vel og við prufukeyrðum hana um fyrri helgi en sjálf vinnslan hófst í byrjun síðustu viku. Það hefur allt gengið að óskum og framhaldið lofar góðu,“ segir Torfi.

Nýja flæðilínan kemur í stað 13 ára gamallar línu frá Marel. Um er að ræða 24-stæða snyrtilínu, auk nýrrar tveggja brauta bitaskurðarvélar, sem bætist við þær þrjár sem fyrir eru. Verður hægt að auka afköst í bitaskurði til muna við þessa viðbót. Einnig hafa verið settar upp fjórar QC M6000 gæðaskoðunarstöðvar sem munu gera gæðaeftirlit rafrænt og auðvelda allt aðgengi að gæðaskráningum. Fjöldi starfmanna HB Granda hefur verið á námskeiðum hjá Marel til að geta nýtt sér þá möguleika sem flæðilínan bíður upp á til bættrar framleiðslu- og gæðastýringar.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir