FréttirSkrá á póstlista

19.01.2010

Aflinn glæddist en mikil áta var með gulldeplunni

Tvö af uppsjávarskipum HB Granda, Faxi RE og Ingunn AK, eru nú á Akranesi en þar er verið að landa gulldeplu úr skipunum. Þriðja skipið, Lundey NS, er enn að veiðunum á miðunum í Grindavíkurdjúpi en þar er nú komið leiðindaveður og að sögn Arnþórs Hjörleifssonar skipstjóra verður haldið áleiðis til Akraness síðar í dag þegar búið verður að hífa.

Svo virtist sem að gulldepluaflinn væri að glæðast um helgina en skipin höfðu þá flutt sig vestur fyrir Skerjadjúpið.

,,Við fylgdum kantinum og enduðum á botnlausu dýpi. Það vantaði ekki að það var gulldepla þarna en vandinn var sá að hún var innan um það mjög mikið af alls konar átu að það var ómögulegt að stunda veiðarnar þarna vestur frá. Við færðum okkur því aftur í Grindavíkurdjúpið og hér er ástandið svipað og fyrr. Það fengu tvö skip rúmlega 100 tonna afla í gær en annars er aflinn þetta frá um 50 til 100 tonn á sólarhring,“ segir Arnþór.

Lundey er nú komin með um 500 tonna afla og væntanlega bætist eitthvað við þegar híft verður síðar í dag. Arnþór sagðist þó eiga von á því að það yrði fyrr en síðar því nú eru 15 m/s á veiðisvæðinu og vaxandi sjór.

,,Það var sléttur sjó þegar við köstuðum í morgun en nú er komin leiðinda bræla og horfurnar eru ekki góðar fyrir morgundaginn,“ sagði Arnþór Hjörleifsson.

Þess má geta að Ingunn og Faxi, sem héldu til Akraness í gærkvöldi, eru samtals með um 1.200 til 1.300 tonna afla.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir