FréttirSkrá á póstlista

13.01.2010

UST með kynningarfund vegna nýju fiskmjölsverksmiðjunnar

Umhverfisstofnun (UST) hefur boðað til almenns kynningarfundar á Vopnafirði á morgun þar sem tillaga að starfsleyfi fyrir fiskmjölsverksmiðju HB Granda á staðnum verður til umfjöllunar.. Fundurinn verður haldinn í Miklagarði, félagsheimili Vopnafjarðar, og hefst hann kl. 17. Að lokinni framsögu gefst fundargestum kostur á að koma með athugasemdir og bera upp spurningar.

Á heimasíðu UST segir að HB Grandi sé að byggja nýja fiskmjölsverksmiðju á athafnasvæði sínu á Vopnafirði. Í tillögu að starfsleyfi sé gert ráð fyrir að hámarksafköst verksmiðjunnar séu miðuð við að framleitt verði úr 850 tonnum af hráefni á sólarhring. Framkvæmdin hafi verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar sem hafi úrskurðað að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa í för með sér veruleg umhverfisáhrif og sé því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

,,Nýju fiskimjölsverksmiðjunni fylgja ýmsar endurbætur og breytingar á mengunarvörnum. Notaður verður rafskautaketill og stefnt er að því að notkun hans taki alveg yfir og engin olíubrennsla verði við framleiðsluna. Samkvæmt upplýsingum frá HB Granda hefur olíunotkun verksmiðjunnar undanfarin ár numið 2,5 til 3,0 milljónum lítra á ári. Þá má nefna að fyrirhugað er að eyðing lyktar fari fram í efnaturni að lokinni meðhöndlun í sjóturni. Þessi tækni felur í sér að notaður er klór til að sundra illa lyktandi efnasamböndum og kemur þessi aðferð í stað eftirbrennslu útstreymislofts sem áður hefur verið notuð í þessu skyni. Enn fremur verður vinnslukerfið allt lokað sem og löndun í flutningaskip og mun þá notkun einnota mjölpoka leggjast af,“ segir m.a. í umfjöllun um málið á heimasíðu UST.

Fram kemur að athugasemdir við umsókn eða tillögu skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 4. mars 2010.

Sjá einnig: Uppbygging á Vopnafirði á lokasprettinum

Nýjustu fréttir

Allar fréttir