FréttirSkrá á póstlista

11.01.2010

Minna af gulldeplu en á sama tíma í fyrra

,,Það er mjög rólegt yfir þessu og veiðin er mun minni en á sama tíma í fyrra. Þá hefur skipum á veiðunum fjölgað og svæðið, sem veitt er á, er ekki mjög stórt og þolir illa allan þennan fjölda,“ sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Faxa RE, er rætt var við hann um gang mála á gulldepluveiðunum.

Faxi RE var komin á miðin í Grindavíkurdjúpi í morgun eftir að hafa komið til Akraness sl. laugardag með um 490 tonna afla. Sama dag var þar landað um 435 tonnum úr Bjarna Ólafssyni AK og rúmlega 520 tonnum úr Ingunni AK. Öll þrjú uppsjávarveiðiskip HB Granda eru nú á gulldepluveiðunum í Grindavíkurdjúpi en auk Faxa og Ingunnar fór Lundey NS til veiða í gærkvöldi.

Að sögn Alberts hefur gulldepla aðeins fundist í veiðanlegu magni í Grindavíkurdýpinu.

,,Vestmannaeyingarnir og Hornfirðingarnir eru búnir að leita að gulldeplu á svæðunum hér fyrir austan en án árangurs. Það eru því öll skipin komin hingað í Grindavíkurdýpið og alls eru þetta ein tíu skip sem eru á gulldepluveiðum. Magnið virðist hins vegar ekki vera mikið. Það lóðar aðallega á þennan fisk á um 120 til 130 faðma dýpi og stundum ofar. Yfirleitt er togað frá um klukkan 8-9 á morgnana og svo er togað í um 12 tíma áður en það er híft. Aukaafli er sáralítill og í síðasta túr vorum við með þrjú lítil kör af öðrum fiski en gulldeplu eftir fimm daga á veiðum,“ segir Albert Sveinsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir