FréttirSkrá á póstlista

18.12.2009

Jólaboð fyrir hátt í 500 manns

Hangikjöt með uppstúf, laufabrauði og öðru meðlæti var í öndvegi í þremur jólaboðum sem HB Grandi hélt fyrir starfsfólk sitt á Akranesi, Vopnafirði og í Reykjavík nú í vikunni. Alls voru hátt í 500 manns í mat á þessum þremur stöðum. Vinnslu lauk í fiskiðjuverunum í Reykjavík og á Akranesi í dag og hefst hún væntanlega að nýju eftir jólaleyfi í annarri viku á nýju ári.

Það voru Skagamenn, sem riðu á vaðið, en þar var jólaboðið haldið eftir að vinnu lauk sl. þriðjudag. Að sögn Torfa Þorsteinssonar, framleiðslustjóra HB Granda, voru þar um 120 manns í mat en sú hefð hefur skapast að eldri starfsmönnum, sem hættir eru störfum, hefur verið boðið í veisluna.

Á Vopnafirði var jólaboðið haldið í hádeginu á miðvikudag og var það óvenju fjölmennt að þessu sinni því auk starfsmanna HB Granda var öllum verktökum og undirverktökum, sem vinna við byggingu hinnar nýju fiskmjölsverksmiðju félagsins á staðnum, boðið til veislunnar. Þá voru fulltrúar Vopnafjarðarhrepps á staðnum en þeir höfðu fyrr um morguninn kynnt sér þá miklu uppbyggingu sem HB Grandi hefur staðið fyrir á Vopnafirði. Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, fékk við þetta tækifæri afhenta ákaflega fallega mynd af hafnarsvæðinu í Vopnafirði sem Bjarki Björgólfsson, starfsmaður HB Granda á Vopnafirði, tók í sumar með þeim óskum að henni yrði komið fyrir á viðeigandi stað í höfuðstöðvum félagsins í Reykjavík. Alls tóku um 140 manns þátt í jólaboðinu, sem haldið var í félagsheimilinu Miðgarði, og á meðan borðhaldi stóð sáu börn í Tónlistarskóla Vopnafjarðar um tónlistaratriði.

Í Reykjavík var jólaboðið haldið í hádeginu í gær. Þar voru um 200 manns í mat. Kór Flensborgarskóla sá um tónlistarflutning og söng nokkur jólalög við góðar undirtektir.  

Að sögn Torfa Þorsteinssonar verður mikið um að vera í fiskiðjuverum HB Granda í Reykjavík og á Akranesi þrátt fyrir að framleiðsla liggi niðri vegna jólahátíðarinnar. Miklar framkvæmdir verða í báðum húsum um jólin.  Ný vinnslulína frá Marel, auk annars búnaðar, verður sett upp í Reykjavík og á Akranesi verður vinnsluhléið notað til margskonar breytinga og lagfæringa á vélum og tækjum. Á Vopnafirði verður svo framkvæmdum við nýja fiskmjölsverksmiðju haldið áfram en stefnt er að því að verksmiðjan verði fullbúin í lok næsta mánaðar.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir