FréttirSkrá á póstlista

14.12.2009

Gulldepluveiðar hafnar að nýju

Skip HB Granda eru byrjuð á gulldepluveiðum á nýjan leik eftir nokkurt hlé sem gert var á veiðunum vegna þrálátrar ótíðar nú í byrjun mánaðarins. Veiðisvæðið er sem fyrr í nágrenni Grindavíkurdýpis og alls eru nú sex skip á miðunum. Aflabrögðin eru líkt og áður með rólegra móti.

,,Við fórum út sl. fimmtudagskvöld en föstudagurinn fór fyrir lítið vegna brælu. Við hófum því ekki veiðar fyrr en á laugardagsmorgninum,“ sagði Róbert Axelsson, fyrsti stýrimaður og afleysingarskipstjóri á Ingunni AK, er rætt var við hann laust upp úr hádeginu í dag.

Róbert segir að auk skipa HB Granda, Ingunnar AK, Faxa RE og Lundeyjar NS, séu Hoffell SU, Sighvatur Bjarnason VE og Ísleifur VE nú á veiðisvæðinu í kantinum suðaustan við Grindavíkurdýpið.

,,Það er ekki mikið að sjá og lóðningar eru ekki miklar. Þetta eru aðallega litlir blettir sem við verðum varir við. Vandinn er einnig sá að það þýðir ekkert að veiða gulldepluna nema á meðan birtu nýtur og dagurinn er ekki langur um þessar mundir. Það er togað frá því á morgnana og þar til að það dimmir og það þykir gott að fá 120 til 150 tonn í holi,“ sagði Róbert Axelsson.

Ingunn og Faxi eru nú á síðasta degi veiðiferðarinnar og í kvöld verður haldið áleiðis til Akraness þar sem aflinn fer í bræðslu hjá fiskmjölsverksmiðju HB Granda.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir