FréttirSkrá á póstlista

09.12.2009

Átak í fræðslu- og gæðamálum

Það er nóg að gera hjá starfsmönnum HB Granda um þessar mundir því auk hefðbundinna starfa taka allir starfsmenn fiskiðjuveranna í Reykjavík og á Akranesi þátt í námskeiðum þar sem farið er yfir meðhöndlun á hráefni, hreinlæti, umgengni og þrif. Námskeiðin, sem haldin eru í samstarfi við rannsóknarstofuna Sýni, hófust í síðasta mánuði og þeim lýkur svo í þessum mánuði.

Að sögn Bergs Einarssonar, verkstjóra gæðamála hjá HB Granda, verða námskeiðin alls 14 talsins. Þar af eru þrjú haldin á Akranesi. Í Reykjavík eru þátttakendur alls 135 og eru námskeiðin haldin á níu tungumálum, íslensku, ensku, tælensku, pólsku, litháísku, víetnömsku, kínversku, portúgölsku og tagalog sem er tungumál þeirra sem ættaðir eru frá Filippseyjum. Þátttakendur í námskeiðunum á Akranesi eru 40 talsins og þar verður kennt á íslensku og pólsku.

Farið er yfir ýmsa mikilvæga þætti á sviði fiskvinnslunnar og nægir í því sambandi að nefna örverufræði, hegðun og útbreiðslu örvera, krossmengun og matarsjúkdóma auk áherslu á góða umgengni, hreinlæti og þrifnað. Þá eru starfsmenn markaðsdeildar HB Granda með kynningu á helstu mörkuðum og flutningsleiðum til þeirra markaða sem afurðir félagsins eru seldar á. Einnig kynna stjórnendur í fiskvinnslunni nýja flæðilínu sem taka á í notkun eftir áramótin.

Síðar í þessum mánuði og í byrjun janúar nk. verða svo haldin námskeið fyrir starfsfólk í fiskvinnslunni í samvinnu við Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar. 38 starfsmenn munu sækja þau námskeið og verða þau á íslensku, ensku og litháísku. Umrædd námskeið standa yfir frá mánudegi til föstudags og alls í 40 tíma. Meðal þess, sem fjallað er um á námskeiðunum, eru eftirtalin atriði:

Fiskurinn – auðlind í hafinu

Vinnuaðstaða og líkamsbeiting

Öryggi á vinnustöðum

Hreinlæti

Atvinnulífið – starfsfólkið og launakerfin

Samstarf og samskipti á vinnustað

Sjálfstyrking

Fiskvinnslan – Gæðastjórnun

Afurðir og markaðir

Sjávarútvegurinn og umhverfismál

Samskipti þvert á menningarheima.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir