FréttirSkrá á póstlista

02.12.2009

Framkvæmdir á Vopnafirði eru á áætlun

Framkvæmdum við hina nýju fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði miðar vel og eru þær á áætlun að sögn Sveinbjörns Sigmundssonar, verksmiðjustjóra. Þá er í ráði að í vikunni verði lokið við steypuvinnu á gólfi mjölgeymslu sem verið er að byggja á grunni hinnar gömlu mjölskemmu fyrirtækisins.

,,Það er búið er að loka verksmiðjuhúsinu og nánast öll tæki eru komin á sína staði. Við eigum aðeins eftir að koma nokkrum dælum fyrir. Núna er raflagnavinnan að fara á fullan kraft en á meðan ekki var búið að stilla upp tækjunum var erfitt fyrir rafvirkjana að athafna sig,“ segir Sveinbjörn .

Rúmlega 40 manns, að meðtöldum starfsmönnum fiskmjölsverksmiðjunnar, hafa unnið við framkvæmdirnar á Vopnafirði en auk byggingar nýju verksmiðjunnar og nýs mjölhúss hefur verið unnið við að ganga frá í gamla verksmiðjuhúsinu. Samkvæmt áætlun á að vera hægt að gangsetja fiskmjölsverksmiðju HB Granda í lok janúar nk. en að sögn Sveinbjörns verður það bara að koma í ljós hvort hráefni verði í boði þegar þar að kemur.

,,Janúar hefur oftast verið rólegur hjá okkur. Stundum höfum við fengið síld hingað á þeim árstíma en loðnuveiðarnar byrjuðu ekki að marki fyrr en komið var fram í febrúar. Nú er óvissa varðandi loðnuveiði á vertíðinni og við verðum að treysta á að mælingar á loðnustofninum gefi tilefni til veiða. Kolmunnaveiðar hafa svo yfirleitt hafist í kjölfar hefðbundinnar loðnuvertíðar,“ segir Sveinbjörn Sigmundsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir