FréttirSkrá á póstlista

26.11.2009

Fyrsti gulldeplufarmurinn á nýhafinni vertíð

Von er á Faxa RE með fyrsta gulldeplufarm á þessum vetri til Akraness í nótt. Faxi var alls kominn með um 500 tonna afla í morgun eftir þrjá sólarhringa á veiðum þannig að von er til þess að heildaraflamagnið verði nokkru meira eftir veiðar dagsins. Um 70 sjómílna sigling er frá miðunum til Akraness.

Samkvæmt upplýsingum Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, hefur Ingunn AK einnig verið á miðunum um 30 mílur suður af Reykjanesi og var skipið komið með um 300 tonn af gulldeplu í morgun eftir tvo sólarhringa á veiðum. Þriðja uppsjávarskip HB Granda, Lundey NS, er væntanlegt á gulldeplumiðin í fyrramálið en skipið kom til Akraness á þriðjudag með um 1.370 tonn af síld sem fékkst í Breiðafirði.

Að sögn Vilhjálms létu Faxi og Ingunn reka í nótt sem leið enda hefur veiðin fram að þessu aðeins verið yfir daginn eða á meðan birtu nýtur. Er það svipað ástand og var á veiðunum í byrjun ársins.

Alls var tekið á móti rúmlega 5.000 tonnum af gulldeplu hjá fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi í byrjun ársins. Að sögn Guðmundar Hannessonar, verksmiðjustjóra, gekk misjafnlega að vinna þennan smáa fisk.

,,Gulldeplan var ótrúlega feit og lýsisinnihaldið kom okkur verulega á óvart. Best var að vinna hráefnið þegar aflinn var ísaður með ískrapa um borð og stutt var að fara frá miðunum hingað til okkar. Ferskleikinn virðist því skipta mjög miklu fyrir ganginn í vinnslunni. Annars höfum við gert smávægilegar breytingar á vinnsluferlinu sem miða að því að ná sem mestum vökva strax úr hráefninu og koma honum inn á skilvindur. Það ætti að auðvelda okkur eftirleikinn,“ sagði Guðmundur Hannesson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir