FréttirSkrá á póstlista

25.11.2009

Lokið við að veiða síldarkvóta HB Granda

Lundey NS kom í gærkvöldi til Akraness með um 1.350 til 1.400 tonn af síld sem fengust í Breiðafirði í gær og fyrradag. Þar með hafa skip HB Granda lokið við að veiða þann 4.500 tonna síldarkvóta sem kom í hlut félagsins við ákvörðun sjávarútvegsráðherra á 40 þúsund tonna aflamarki á veiðum á íslensku sumargotssíldinni fyrr í þessum mánuði.

Að sögn Arnþórs Hjörleifssonar, skipstjóra á Lundey, var ástandið á miðunum við Stykkishólm í veiðiferðinni hið sama og starfsbræður hans á Faxa RE og Ingunni AK hafa áður lýst hér á heimasíðunni. Erfitt tíðarfar og norðlæg vindátt, sem stóð beint á land, og síldin uppi í landssteinum. Auk þess var mikill straumur í sundunum í nágrenni Stykkishólms.

,,Við köstuðum tvisvar og í bæði skiptin rétt fyrir utan Stykkishólm. Annað kastið tókum við út af slippnum og dráttarbrautinni á staðnum og í seinna kastinu vorum við staddir við innsiglingarmerkin í höfnina. Loks fengum við gefins afla úr nót Barkar NK í gærmorgun. Áhöfnin á því skipi fékk þá ágætt kast innan við Kiðeyna en þar var sæmilegt hlé fyrir vindinum og sennilega eini staðurinn þar sem hægt var að athafna sig með nót á þeim tíma,“ segir Arnþór.

Þess má geta að Lundey NS var við síldarleit í samvinnu við Hafrannsóknastofnunina áður en skipið fór til síldveiða í Breiðafirði en að sögn Arnþórs fannst ekkert í þeim leiðangri.

,,Við sigldum einar 500 mílur á svæðinu frá Snæfellsnesi, suður Faxaflóann og enduðum yfirferðina vestan við Eldey. Yfirleitt leituðum við nokkuð djúpt en fórum þó upp að grunnunum í Faxaflóanum. Það var e.t.v. ekki skrýtið að við skyldum ekki verða varir við síld, því ef marka má reynslu manna af síldveiðum í Breiðafirðinum þá virðist síldin halda sig uppi í fjörum,“ sagði Arnþór Hjörleifsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir