FréttirSkrá á póstlista

24.11.2009

Lítill kraftur í gulldepluveiðunum

Tvö skip HB Granda, Faxi RE og Ingunn AK, eru nú að gulldepluveiðum vestast í Grindavíkurdýpi. Faxi var kominn á miðin sl. sunnudag og Ingunn kom á svæðið í morgun.

Að sögn Alberts Sveinssonar, skipstjóra á Faxa, hefur verið afskaplega rólegt yfir veiðunum en þó höfðu Faxamenn fengið samtals um 170 tonn í tveimur holum og stóð þriðja holið yfir er rætt var við Albert.

,,Það er enginn kraftur í þessu. Við komum á miðin á sunnudag og byrjuðum á sigla vítt og breitt um svæðið í leit að álitlegum lóðum. Fundum þó lítið til að byrja með en í gær fengum við svo 100 tonna hol og um 70 tonn í öðru holinu. Núna erum við að skrölta á smábletti, sem við höfum verið að veiða úr,“ segir Albert en hann segir sáralítið um annan fisk í aflanum. ,,Það er varla hægt að segja að við höfum fengið í soðið og það kom mér á óvart að aukaaflinn skyldi ekki vera meiri þar sem við erum yfirleitt að toga alveg niðri undir botni og á köflum virðist gulldeplan liggja þétt við botninn, þótt annars staðar sé hún ofar. Frystitogarar eru að veiðum ekki langt undan þannig að það kemur á óvart að fá ekki meira af öðrum fiski með í trollið,“ segir Albert en að sögn hans hefur hann verið að toga uppi á grunninu en samt ekki fjarri djúpkantinum.

Gulldepla er afar smár fiskur og hann geymist ekki vel að sögn Alberts.

,,Við ísum með ískrapa í lestarnar til að halda hráefninu sem ferskustu en það er alveg ljóst að það dugar ekki að vera lengi í hverri veiðiferð. Sem betur fer er stutt að fara með aflann til Akraness,“ segir Albert Sveinsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir