FréttirSkrá á póstlista

20.11.2009

Erfiðar aðstæður torvelda síldveiðar

,,Aðstæðurnar eru vægast sagt skelfilegar. Hér er stöðug bræla, vindur stendur á land og síldin er alveg uppi í landssteinum. Við erum í Kiðeyjarsundi um hálfa skipslengd frá eyjunni og þrátt fyrir þokkalegar lóðningar af og til þá er ákaflega erfitt að athafna sig.“

Þetta sagði Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Ingunni AK, er tíðindamaður heimasíðunnar náði tali af honum upp úr kl. 14 í dag.

Ingunn Ak hefur verið að síldveiðum í Breiðafirði frá því í gær og þrátt fyrir erfiðar aðstæður, norðan- og norðaustan 20 m/s og mikinn straum þá höfðu Guðlaugur og hans menn náð um 1.000 tonna afla í tveimur köstum.

,,Nú er t.d. að falla að. Straumurinn er stríður í þessum sundum og það skapar erfiðleika með nótina,“ sagði Guðlaugur en að hans sögn er síldin, sem veiðst hefur, af góðri stærð. Um 500 tonn vantar upp á að áhöfnin á Ingunni AK nái skammtinum en Guðlaugur var vongóður um að það gæti tekist fljótlega því þegar hann sleit talinu var hann kominn í góða lóðningu á álitlegum stað.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir