FréttirSkrá á póstlista

18.11.2009

Verksmiðjan á Akranesi gangsett eftir langt hlé

Í morgun hófst vinna í fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi að nýju eftir langt hlé er farið var að vinna úr afla sem Faxi RE kom með til Akraness um miðnætti sl. Afli skipsins er um 1.400 til 1.500 tonn af síld sem veiddist í Breiðafirði. Von er á meiri síldarafla til Akraness á næstunni.

,,Hér hefur vinnsla legið niðri frá því að verið var að bræða kolmunna sl. vor,“ sagði Almar Sigurjónsson, rekstrarstjóri fiskmjölsverksmiðja HB Granda, er rætt var við hann í morgun. Þá var verið að gangsetja verksmiðjuna. Að sögn Almars er afkastageta verksmiðjunnar á Akranesi um 900 til 1.000 tonn af hráefni á sólarhring en hann sagðist reikna með að vinnslan færi rólega af stað og verksmiðjan yrði væntanlega ekki keyrð á nema hálfum afköstum til að byrja með. Um 10 til 11 manns munu vinna við framleiðsluna og unnið verður á tvískiptum vöktum.

Líkt og áður hefur verið greint frá hér á heimasíðunni er hlutur skipa HB Granda í útgefnum síldarkvóta um 4.500 tonn og sá kvóti dugar því ekki nema fyrir eina veiðiferð hjá hverju uppsjávarskipa félagsins. Vonir eru hins vegar bundnar við að hægt verði að auka við síldarkvótann en það gerist ekki nema að undangengnum rannsóknum á stofnstærð og ástandi stofnsins. Lundey NS er nú við síldarrannsóknir í Kolluál, sem skipulagðar eru af Hafrannsóknastofnun, og að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarveiðisviðs HB Granda, verður skipið við þær rannsóknir í rúma tvo sólarhringa. Að því búnu tekur Faxi RE við í jafnlangan tíma. Þriðja uppsjávarveiðiskip félagsins, Ingunn AK, er nú við síldveiðar í Breiðafirði.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir