FréttirSkrá á póstlista

09.11.2009

Verkum miðar vel á Vopnafirði

Framkvæmdum við nýja fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði hefur miðað ákaflega vel nú í vetrarbyrjun. Búið er að loka verksmiðjuhúsinu að öðru leyti en því að eftir að koma fyrir hurðum. Þá er búið að rífa turninn yfir eimingartækjunum sem voru í gömlu verksmiðjubyggingunni en óráðið er hvernig gamla húsið, sem er yfir 900 m2 að gólfflatarmáli, verður nýtt í framtíðinni að öðru leyti en því að ljóst þykir að hægt verði að nýta hluta þess undir geymslur.

,,Það er ekki annað hægt en að vera ánægður með það hvernig framkvæmdunum hefur miðað,“ segir Sveinbjörn Sigmundsson, verksmiðjustjóri á Vopnafirði, en hann upplýsir að nú síðar í vikunni verði ákveðin tímamót í starfsemi fiskmjölsverksmiðjunnar á staðnum.

,,Við eigum von á flutningaskipi hingað nk. fimmtudag og það mun lesta allt það mjöl sem við eigum eftir af framleiðslu ársins. Þetta verður væntanlega í síðasta skipti sem við skipum út mjöli með gömlu aðferðinni sem felst í því að mjölinu er ekið í sekkjum á vörubílum frá mjölskemmunni að skipi þar sem rist hefur verið á pokana og mjölið losað í tanka skipsins. Í framtíðinni verður öllu mjöli dælt beint úr mjöltönkunum,sem komu frá Reykjavík, um borð í skipin. Því mun fylgja umtalsverð hagræðing og sparnaður í rekstri. Nú þurfum við 15-16 manns, lyftara og vörubíla til að sjá um útskipunina sem tekur einn dag en framvegis munu tveir starfsmenn og nýtt mjölflutningskerfi sjá um það verk,“ segir Sveinbjörn.

Framkvæmdirnar við hina nýju fiskmjölsverksmiðju eru ekki einu endurbæturnar sem HB Grandi stendur í á Vopnafirði því í ráði er að byggja nýtt hús yfir grunn mjölskemmunnar.

,,Við ættum að geta farið að huga að því þegar búið verður að tæma skemmuna. Mér telst til að nýja byggingin verði tæplega 600 m2 að stærð“ segir Sveinbjörn Sigmundsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir